Opið hús í háskólum landsins í dag

Sprengjugengið hefur jafnan vakið mikla hrifningu hjá yngstu kynslóðinni með …
Sprengjugengið hefur jafnan vakið mikla hrifningu hjá yngstu kynslóðinni með alls konar brellum og vísindum. mbl.is/Golli

Háskóladagurinn verður haldinn hátíðlegur í háskólum landsins í dag. Verða Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands með opið hús fyrir alla landsmenn þar sem boðið verður upp á fjölbreytta í dagskrá. Í Háskóla Íslands verður m.a. að finna á dagskránni kínverskan dreka, fluguheila, samyrkju á vegum ritlistanema, endurgerðan Suðurlandsskjálfta, klifurvegg, stærstu gestabók í heimi og hárréttan handþvott, að er fram kemur í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

„Skólinn verður með opið hús fyrir alla landsmenn milli kl. 12 og 16 og býður upp á alls kyns viðburði sem sýna vísindin í litríku ljósi ásamt því að kynna fjölbreytt námsframboð sitt fyrir áhugasömum,“ segir í tilkynningu þar sem jafnframt kemur fram að hinir opinberu háskólarnir kynna nám sitt í húsakynnum HÍ.

Sprengjugengið stígur á stokk

Að sögn Hallfríðar Þóru Tryggvadóttur, verkefnastjóra Háskóladagsins, verða vísindin í aðalhlutverki í dag, þar sem Sprengjugengið, helstu sérfræðingum Íslands í efnafræðibrellum að hennar sögn, munu leika listir sínar í Háskólabíói.

„Háskóladagurinn er sannkölluð lista- og vísindahátíð. Námskynningar háskólanna eru ekki allar með hefðbundnu sniði því nemendur eru virkilega að leggja sig fram við að varpa nýju ljósi á námið sitt,” segir Hallfríður.

Hún nefnir sem dæmi sýningar Sprengjugengisins, sem er skipað nemendum í efna- og lífefnafræði við HÍ, og forritunarnámskeið fyrir börn og ungmenni í HR. Listamenn framtíðarinnar sýna og segja frá verkum sínum í LHÍ.

„Það verður eiginlega sérstök listahátíð í Listaháskólanum á Laugarnesvegi. Ég veit samt ekki hvort einhver verði í kassa en maður má vona,” segir Hallfríður.

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands kynna námsleiðir í HÍ. Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst verða með dagskrá í HR. Listaháskólinn verður á Laugarnesvegi 91. Allar frekari upplýsingar má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert