„Heyrðu strákur, það blæðir mjög mikið úr þér“

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Árásarmaður sem stakk mann í bakið með hníf við stúdentagarða við Sæmundargötu í nótt verður yfirheyrður seinna í dag. Hann var handtekinn á vettvangi í nótt og samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verður metið eftir skýrslutöku hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir honum.

Frétt mbl.is: Alvarleg hnífaárás við stúdentagarða

Líðan mannsins sem stunginn var er stöðug. Er honum haldið sofandi í öndunarvél eftir að hafa gengist undir aðgerð í nótt. Mennirnir eru vinir og báðir fæddir árið 1989, en svo virðist sem einhver ágreiningur hafi komið upp á milli þeirra.

Blaðamaður mbl.is var á staðnum í nótt og sá til átaka mannanna tveggja.

Ljós peysa orðin dökkrauð

Ekki er ljóst hvort maðurinn hafi þegar verið stunginn þegar blaðamaður veitti ferðum þeirra athygli. Í fyrstu virtist sá, sem grunaður er um hnífstunguna, vera að forðast hinn þar sem þeir hringsóluðu hægt í kringum bíl sem lagt hafði verið í stæði við götuna.

Örskömmu síðar dró til átaka á milli þeirra, skiptust þeir á hnefahöggum stutta stund og hófu svo að glíma hvor við annan. Sá blaðamaður ekki til hnífs meðan á þessu stóð en tekið skal fram að mjög dimmt var úti á þessum tíma. Aðeins fáeinum sekúndum síðar var áflogunum lokið og hugðust þeir ganga á brott, hvor í sína átt. 

Sást þá hvar blæddi mjög mikið úr baki þess sem stunginn var, en hann var klæddur ljósri peysu sem var þá orðin dökkrauð á stóru svæði hægra megin að aftanverðu.

Kallar þá kona til hans frá svölum sínum í Stúdentagörðunum. „Heyrðu strákur, það blæðir mjög mikið úr þér.“

Fjölmennt lögreglulið á vettvangi

Sneri hann sér þá við og svaraði konunni. Sagðist hann ekki geta gert sér grein fyrir því hversu mikið honum blæddi þar sem hann gæti ekki séð sárið. Sagði hún honum þá að koma að inngangi byggingarinnar. Gekk hann þá áleiðis þangað, en ekki sá blaðamaður meir til meints geranda.

Nokkru síðar kom á vettvang fjölmennt lögreglulið og lokaði Sæmundargötu þar sem hún liggur hjá byggingunni. Á gangstéttinni fyrir utan húsið mátti sjá stórar blóðslettur og í anddyri hússins var töluvert magn blóðs á gólfi og einnig á veggjum.

Kann það að hafa orðið manninum til mikils happs að konan kallaði á eftir honum, þar sem hann hugðist ganga á brott eftir átökin.

Sjá frétt mbl.is: Þungt haldinn eftir hnífstungu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert