Dekkjakurl fjarlægt á Seltjarnarnesi

Frá knattspyrnuleik á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi.
Frá knattspyrnuleik á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi. mbl.is/Ernir

Bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi ætla að fjarlægja allt gúmmíkurl úr dekkjum við íþróttasvæði Seltirninga og verður völlurinn allur endurnýjaður við sama tækifæri. 

Með þessu móti vill bæjarfélagið bregðast við þeirri umræðu sem hefur verið uppi  um mögulega skaðsemi kurlsins og skapa öruggt umhverfi fyrir íþróttaiðkendur á Seltjarnarnesi.

Að sögn Soffíu Karlsdóttur, sviðsstjóra menningar- og samskiptasviðs Seltjarnarness, er vonast til að verkið hefjist í apríl eða maí og telur hún að það muni ganga fljótt og örugglega fyrir sig.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er 75 milljónir króna. 

Hún segir að bæjaryfirvöld hafi ekki verið beitt þrýstingi til að losa sig við dekkjakurlið. „Það er kominn svolítill tími á völlinn og það var ákveðið að taka skrefið fyrst þetta er í umræðunni, þessi hugsanlegu eiturefni í gúmmíkurlinu,“ segir Soffía.

„Það er um að gera að hafa þetta sem umhverfisvænast, þannig að öllum líði vel á æfingum og að enginn hafi áhyggjur af heilsunni þegar hann er að iðka íþróttir.“

Frétt mbl.is: Börn eins og námugraftrarmenn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert