Íslendingar handteknir á Spáni

Kannabisplöntur. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki …
Kannabisplöntur. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Einn eða fleiri Íslendingar eru á meðal fjögurra einstaklinga sem spænska lögreglan handtók í febrúar í tengslum við maríjúanaræktun í bænum San Miguel de Salinas í Valencia-héraði. Fólkið, tveir karlar og tvær konur, er á aldrinum 23-35 ára að sögn lögreglu.

Í frétt á vefsíðu spænska blaðsins Información kemur fram að fólkið sé Íslendingar og Bretar og það hafi verið handtekið um miðjan febrúar. Eftir nafnlausa ábendingu fann lögregla töluvert magn af kannabisplöntum auk tækja og tóla til ræktunarinnar í tveimur íbúðum í bænum.

Fyrir utan ræktunina er fólkið grunað um að hafa stolið rafmagni að verðmæti 22.000 evrur. Í íbúðunum fundust 2,6 kíló af þurrkuðu maríjúana, 76 kannabisplöntur sem voru allt að sextíu sentímetrar að hæð, 19 bakkar með um 1.140 afleggjurum af plöntum og 23 halógenlampar.

Íslendingur á sextugsaldri var handtekinn í Murcia-héraði í febrúar í fyrra og er grunaður um að vera höfuðpaur umfangsmikillar maríjúanaræktunar sem lögreglan stöðvaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert