Stefndu Steingrími án árangurs

Steingrímur Wernersson.
Steingrímur Wernersson. mbl.is/Rósa Braga

Íslandsbanki birti tvær stefnur í Lögbirtingarblaðinu fyrir helgi á hendur athafnarmanninum Steingrími Wernerssyni vegna vanefnda á tveimur lánasamningum. Bæði lánin voru veitt félaginu Vægi ehf. árið 2005, en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2010. 

Önnur stefnan hljóðar upp á tæplega 134 milljónir kr. ásamt dráttarvöxtum og hin upp á tæpar 28 milljónir kr. auk dráttarvaxta, en um er að ræða svokölluð kúlulán, þ.e. lán sem ber að greiða til baka með einni greiðslu. Málið verður þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur þann 7. apríl 2016 náist ekki sátt fyrir þann tíma.

Í stefnunum segir að Steingrímur hafi tekið sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánanna og hefur Íslandsbanki ítrekað reynt að birta honum stefnu í málinu en án árangurs. Steingrímur er búsettur í Lundúnum í Bretlandi að því er fram kemur í stefnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert