Bíða eftir að óhætt sé að fara inn

Frá vettvangi eldsvoðans.
Frá vettvangi eldsvoðans. mbl.is/Eggert

Slökkvilið er búið að ráða endanlega niðurlögum eldsins sem kom upp í iðnaðarhúsnæði á Grettisgötu 87 í gærkvöldi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er nú tekin við vettvanginum en bíður þess að óhætt sé að fara inn í húsnæðið, að sögn Vignis Oddgeirssonar, lögreglufulltrúa hjá tæknideild lögreglunnar.

Tveir slökkviliðsmenn eru enn á vettvangi að dæla upp vatni úr kjallara byggingarinnar en mesta slökkvistarfinu var lokið um klukkan fjögur í nótt. Þá var þegar byrjað að draga úr mannafla slökkviliðs á staðnum. Lögreglu var svo afhentur vettvangur um kl. 6:50 í morgun þegar búið var að ráða niðurlögum eldsins.

mbl.is/Eggert

„Við erum enn bíða eftir að það sé óhætt að fara inn á vettvanginn til að skoða þetta. Það þarf að skoðast í samstarfi við slökkvilið hvenær það er óhætt. Það þarf að huga að þáttum eins og hruni úr þaki og þetta þarf að kólna. Þó að það sé búið að slökkva eldinn er hitinn ennþá mikill,“ segir Vignir.

Enn er ekkert hægt að segja um upptök eldsins en ljóst er að húsið er mikið skemmt eftir hann. Margir íbúar í grenndinni brugðu á það ráð að yfirgefa heimili sín í gærkvöldi vegna reyksins sem lagði frá brunanum.

Mbl.is greindi frá því í gærkvöldi að samkvæmt heimildum leitaði lögregla tveggja manna sem sáust yfirgefa húsið skömmu áður en tilkynnt var um eldinn. Vignir segist ekki geta tjáð sig um það.

mbl.is/Eggert
mbl.is/Eggert
mbl.is/Eggert
Frá eldsvoðanum við Grettisgötu 87 í gærkvöldi.
Frá eldsvoðanum við Grettisgötu 87 í gærkvöldi. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert