Fólk á bak við allar tölurnar

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að mikilvægt sé að koma …
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að mikilvægt sé að koma því á framfæri hvernig heimurinn lítur út um gluggann hjá Stígamótum. Ársskýrsla Stígamóta árið 2015 var kynnt í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. mbl.is/Golli

Á þeim 26 árum sem Stígamót hafa starfað hafa 7.398 einstaklingar leitað til samtakanna. Fyrsta starfsárið fengu samtökin 454 mál inn á borð til sín, sem er mesti fjöldi á einu ári frá upphafi.

Í fyrra var fjöldi nýrra mála alls 330 hjá Stígamótum, sem er þriðja hæsta tala frá upphafi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársskýrslu Stígamóta sem kynnt var í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

„Á bak við allar þessar tölur er fólk. Allar tölfræðiupplýsingar eru unnar úr viðtölum við okkar fólk,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.

Kynferðisofbeldi er sýnilegra en áður

Mikil aðsókn var hjá Stígamótum á liðnu ári. „Frá því að við opnuðum upp úr 1990 höfum við ekki séð annan eins fjölda þar til málið um Karl Vigni kom fram árið 2013 og það varð sprenging hjá öllum þeim sem höfðu með kynferðisofbeldi að gera. Það féll svo niður árið eftir en blómstraði upp aftur í fyrra. Við erum því komin með tölur sem eru sambærilegar við upphafsárið.“

Ástæðurnar segir Guðrún vera margar og nefndi þar Beautytips byltinguna og fleiri samfélagsmiðlabyltingar, svo sem #þöggun, #freethenipple og #sexdagsleikinn, svo dæmi séu tekin.  

Sjá frétt mbl.is: Ber­brjósta kven­skör­ung­ar tóku árið í nefið

„Umræðan opnaðist á árinu og það var mikill kraftur í grasrótinni. Fólk er farið að tala og lætur ekki þagga niður í sér. Kynferðisofbeldi er mun sýnilegra en áður, hvort það er meira vitum við ekki, en við vitum um fleiri mál,“ segir Guðrún.

Fleiri brotamenn en þolendur

Alls komu 330 ný mál inn á borð til Stígamóta í fyrra. „Þumalputtareglan er sú að við erum að hitta helmingi fleira fólk heldur en það sem kemur í fyrsta skipti, það átti líka við í fyrra, en alls streymdu 677 manneskjur í gegnum húsið.“

Í gegnum árin hafa brotamennirnir verið miklu fleiri en þeir sem leita til Stígamóta ár hvert. Ýmsar ástæður eru fyrir því.

„Ofbeldismennirnir töldust 507 í fyrra, en þetta er ekki rétt tala. Stundum erum við að tvítelja þá, ef að það koma margir út af sama manninum þá vitum við það, svo bætast við hópnauðganir og hversu gífurlega algengt það er að fólkið sem leitar hingað hefur verið beitt ofbeldi oftar en einu sinni og af fleiri en einum. Fólk gleymir því stundum að þetta gegnsýrir lífið hjá svo mörgum,“ segir Guðrún. Af 507 ofbeldismönnum í fyrra töldust 6% konur.

Samfélagsmiðlabyltingar síðasta árs setja svip sinn á ársskýrslu Stígamóta 2015.
Samfélagsmiðlabyltingar síðasta árs setja svip sinn á ársskýrslu Stígamóta 2015.

Færri kærur en árið 2014

Færri nauðganir voru tilkynntar til Stígamóta en árið 2014, en á sama tíma er kæruhlutfall nauðgana lægra. Tilkynnt var um 19 hópnauðganir árið 2014 en 11 í fyrra. „Sem er samt sem áður mjög há tala,“ segir Guðrún.

Aðeins 8,8% af þeim nauðgunum sem tilkynntar voru til Stígamóta á síðasta ári voru kærðar til lögreglu, samanborið við 13,2% árið 2014. „Aðeins þessi 8,8% fara inn í opinber gögn, allt annað eru utangarðs upplýsingar, miðað við opinbert kerfi. Þess vegna er ennþá mikilvægara að við komum því á framfæri hvernig heimurinn lítur út um gluggann hjá Stígamótum,“ segir Guðrún.

Þrengt að Neyðarmóttökunni

Mun fleiri nauðganir voru tilkynntar til Stígamóta en á Neyðarmóttökunni í fyrra. „Það er ekki eins og það á að vera. Við eigum að hafa Neyðarmóttöku sem er svo aðlaðandi að fólk fari strax og leiti sér hjálpar. Hluti af skýringunni snýr ekki að því að Neyðarmótttakan sé léleg heldur það að nauðganir eru þvílík áföll að fólk tekur það ekki heldur en lengu seinna,“ segir Guðrún.

Neyðarmóttökuna megi hins vegar bæta heilmikið. „Það er eitt af okkar baráttumálum að komið verði upp miðstöð fyrir fólk sem beitt hefur verið ofbeldi eða kynferðisofbeldi í sama anda og Barnahús.“

Neyðarmóttakan hefur fengið að finna fyrir niðurskurði líkt og aðrar stofnanir í heilbrigðisgeiranum og er starfsfólk Stígamóta sammála um að starfsemin á Neyðarmóttökunni hafi verið betri þegar hún tók fyrst til starfa árið 1993. „Það hefur stöðugt verið þrengt að Neyðarmótttökunni, með fagfólki, fjármagni og aðstöðu og það er óásættanlegt. Þessu þarf að breyta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert