Framleiðsla Myllunnar raskaðist

Öll framleiðsla lá niðri hjá Myllunni í Skeifunni eftir að dreifistöð Veitna skemmdist í óhappi sem átti sér stað á bílastæði framleiðslufyrirtækisins laust fyrir klukkan 16 í dag.

En þá mátti litlu muna að stórslys yrði þegar Scania-flutningabíll missti tank sinn ofan á kyrrstæða bíla og utan í dreifistöðina.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri ÍSAM ehf. sem meðal annars rekur Mylluna, segir ljóst að fyrirtækið hefur nú þegar orðið fyrir einhverju tjóni vegna þessa enda raskaðist framleiðsla þess. 

„Þegar framleiðsla liggur niðri er ljóst að um tjón er að ræða, sérstaklega ef það varir í einhvern tíma. Núna er unnið að því að meta tjónið,“ segir hún í samtali við mbl.is en þegar blaðamaður náði tali af henni var hún nýkomin á vettvang og á leið á fund vegna málsins.

Greint var frá því á mbl.is fyrr í dag, og vitnað í Öldu Ingibergsdóttur verslunarmann, að síló vöruflutningabíls hafi fallið ofan á kyrrstæða jeppabifreið. Nú er komið í ljós að sílóið rakst einnig utan í dreifistöð rafmagns með þeim afleiðingum að stöðin færðist úr stað, búnaður hennar skemmdist og rafmagn fór af húsnæði Myllunnar í Skeifunni.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Veitna, staðfestir þetta við mbl.is. „Þarna varð tjón á búnaði í stöðinni sem leiddi einungis til rafmagnsleysis hjá Myllunni,“ segir hann og bætir við að búið sé að senda þangað færanlega rafstöð í von um að koma starfsemi fyrirtækisins aftur í gang.

Aðspurður segir Eiríkur búnað dreifistöðvarinnar viðkvæman og óljóst hvort hægt verður að koma stöðinni í gang aftur fyrr en einhvern tímann á morgun.

Uppfært klukkan 19:16

Bergþóra segir starfsmenn Veitna hafa komið rafmagni aftur á starfsemi Myllunnar og er framleiðsla því hafin á ný. „Við keyrum framleiðsluna á varaaflsstöð og síðan verður þetta lagað. Við eigum starfsmönnum Veitna skuld að gjalda - þeir fá eitthvað gott með kaffinu.“

Fyrri frétt mbl.is:

Síló féll ofan á Range Rover

Ljósmynd/Alda Ingibergsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert