Myndir af eldsvoðanum við Grettisgötu

Slökkviliðsmenn á höfuðborgarsvæðinu glímdu við mikinn eld sem upp kom í iðnaðarhúsnæði við Grettisgötu 87 í Reykjavík. Á vettvangi mátti meðal annars sjá fjóra dælubíla slökkviliðs og tvö körfubíla og lokaði lögreglan stóru svæði vegna brunans.

Um tíma lagði mikinn og þykkan reyk yfir nærliggjandi hús og brugðu margir íbúar á það ráð að yfirgefa heimili sín vegna reyksins. Var fólki ráðlagt að loka kyrfilega öllum gluggum og kynda hús sín til að koma í veg fyrir að reykur næði þar inn.

Inni í brennandi húsinu mátti finna alls kyns efni sem æstu upp eldinn og mátti heyra nokkrar sprengingar koma frá húsinu. Ákveðið var, vegna þess hve ótryggur vettvangurinn var, að senda ekki slökkviliðsmenn inn í húsið. Þess í stað fór slökkvistarf að mestu fram utan dyra.

Laust fyrir miðnætti í kvöld var greint frá því á mbl.is, og vitnað í Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóra, að búið væri að ná tökum á brunanum. Ekki er vitað með eldsupptök, en mbl.is hefur heimildir fyrir því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leiti nú tveggja manna sem sáust yfirgefa húsið skömmu áður en tilkynnt var um eldinn.

Meðfylgjandi eru ljósmyndir sem ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is tók á vettvangi brunans í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert