Síló féll ofan á Range Rover

Ljósmynd/Alda Ingibergsdóttir

Litlu mátti muna að stórslys yrði á bílastæði Myllunnar í Skeifunni laust fyrir klukkan 16 í dag þegar Scania-flutningabíll missti pall sinn ofan á kyrrstæða bíla. Sjónarvottur sem mbl.is ræddi við segir minnst eina bifreið, af gerðinni Range Rover Sport, vera gjörónýta eftir atvikið.

„Mér brá alveg ofboðslega þegar ég sá þetta enda blasti þetta við mér í beinni sjónlínu,“ segir Alda Ingibergsdóttir, verslunarmaður í verslun Casa í Skeifunni. „Það kemur inn á bílastæðið stór flutningabíll og lyftir upp sílói en skömmu síðar fer allt saman á hliðina og ofan á Range Rover-inn.“

Aðspurð segist hún því næst hafa hlaupið út úr verslun sinni til þess að kanna með slys á fólki. Það fór þó hins vegar betur en á horfðist í fyrstu þar sem jeppabifreiðin var mannlaus þegar slysið átti sér stað.

Eftir því sem mbl.is kemst næst eru minnst tvær bifreiðar skemmdar eftir óhappið. Önnur þeirra er, sem fyrr segir, jeppabifreið af gerðinni Range Rover Sport en hin er fólksbíll af gerðinni Suzuki.

Ljósmynd/Alda Ingibergsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert