Skoða verkföll við óbreytt ástand

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, ræðir við Ólaf G. Skúlason, formann …
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, ræðir við Ólaf G. Skúlason, formann Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engar ákvarðanir hafa verið teknar um verkfallsaðgerðir hjá félagsmönnum Bandalags háskólamanna hjá sveitarfélögunum að sögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM. Félagið sendi fjölmiðlum tilkynningu fyrr í dag en þar sagði m.a: „Þungur tónn er í fólki, sem íhugar aðgerðir.”

„Staðan er þessi, að samningar hafa verið lausir í rúmlega hálft ár og það hefur gengið seint og illa að eiga kjaraviðræður við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það segir sig sjálft að þegar viðræður fara fram með þessum hætti, að þá kemur að því að fólk hugsar sinn gang,” segir Þórunn.

Hafa verkfallsaðgerðir komið til umræðu?

„Það hefur ekkert verið ákveðið. Það hefur verið hugsað og verður skoðað ef þessi staða breytist ekki fljótt,” segir Þórunn. Spurð á hvaða tímapunkti félagsmenn fari að íhuga einhverskonar verkfallsaðgerðir nefnir hún enga nákvæma dagsetningu en segir það segja sig sjálft að það sé betra að fara að ljúka þessu.

„Einhvern tíma í ferlinu var talað um að það yrði að ljúka þessu fyrir áramót. Síðast var stefnt á febrúarlokum, núna er mars,” segir Þórunn en ein helsta krafa BHM í kjaraviðræðunum er að breyta launakerfi sveitarfélaganna, m.a. með því að færa yfirvinnugreiðslur inn í grunnlaun.

„Það er aldrei erfitt að breyta kerfum ef menn vilja það. Ein aðalkrafan er að yfirvinnugreiðslur færist inn í grunnlaunin. Fyrir utan það að vera eðlileg aðferð til að greiða fólki laun, þá gerir það launakerfið gegnsærra og betra og færir kerfið nær því sem tíðkast annars staðar á vinnumarkaði,” segir hún.

Þórunn segir launakerfið breytilegt á milli sveitarfélaga en víða tíðkist fastar yfirvinnugreiðslur. Hún segir að því þurfi að breyta, enda sé eðlilegra að launin endurspegli vinnu fólks og að hækkanirnar séu nýttar til hækkunar grunnlauna.

„Það má segja að fastar yfirvinnugreiðslur séu hluti af gamalli aðferð við að hækka laun fólks án þess að hækka grunnlaunin. Það er að sjálfsögðu rétt að borga fólki almennileg grunnlaun og eðlilega yfirvinnu fyrir þá vinnu sem innt er af hendi,” segir Þórunn sem vonar að sveitarfélögin gangi til samninga á þessum grunni. Næsti fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður á föstudaginn kemur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert