Vara við asahláku og stormi

Veðurstofan varar við asahláku og stormi næstu daga.
Veðurstofan varar við asahláku og stormi næstu daga. Ómar Óskarsson

Búist er við stormi með mikilli úrkomu og bleytu á fimmtudag, laugardag og sunnudag, en samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands, má búast við miklum umhleypingum í veðrinu næstu daga og er fólk því hvatt til að  fylgjast vel með veðurspánni.

Miklar sviptingar eru væntanlegar í veðrinu næstu daga og mun hlýna og kólna á víxl með mikilli úrkomu. Að sögn sérfræðings á Veðurstofu Íslands má gera ráð fyrir að það skiptist á suðaustan stormur með hlýindum og mikilli úrkomu og suðvestan stormur með kulda og éljum. Suðlægum áttum getur fylgt mikil hlýnun og gera þarf ráð fyrir asahláku samfara veðrinu.  

Strax á að byrja að hvessa annað kvöld og rigna vestan til á landinu. Veðrið á síðan ná hámarki aðfaranótt fimmtudags, en síðan upp úr hádegi þá fer að snúast í suðvestan átt og kólna. Gert er ráð fyrir að vindhraði verið um 18-23 metrar á sekúndu. Sambærileg veðurskil eru væntanleg yfir landið á laugardag og sunnudag og gerir Veðurstofan ráð fyrir stormi alla dagana.

Moka frá niðurföllum og kjöllurum

Mestrar úrkomu er að vænta um landið sunnan- og vestanvert, en þó er gert ráð fyrir að veður verði slæmt um allt land og er fólki því bent á undirbúa sig, m.a. með því að athuga með niðurföll og moka frá kjöllurum.

Þrjár lægðir fara yfir landið þessa daga og liggur lægðabrautin fyrir vestan land. Suðlægar áttir verða ríkjandi allan tímann, en skiptast á milli þess að blása úr suðaustri og suðvestri. 

Gera má ráð fyrir vatnavöxtum

Í tilkynningu á facebook-síðu almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, segir ennfremur að að gera megi ráð fyrir vatnavöxtum á sunnan- og vestanverðu landinu.

„Fólk er beðið um að sýna aðgát í nágrenni vatnsfalla og sérstaklega ef fara þarf yfir ár, þar sem vöð geta orðið varhugaverð. Þetta verður fyrsta asahláka ársins með mikilli úrkomu og leysingum svo að líklegt er að afrennsli verði mjög mikið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert