Gengur í berhögg við vímuvarnastefnuna

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sakaði heilbrigðisráðherra um að ganga í berhögg við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar í áfengis- og vímuvarnarmálum vegna áfengisfrumvarpsins sem liggur fyrir Alþingi. Ráðherrann sagðist ekki talsmaður þess að áfengissölu væri best fyrir komið í höndum ríkisstarfsmanna.

Þingmaðurinn spurði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, út í þingmannafrumvarp um að aflétta einkasölu ríkisins á áfengi í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Sagði hún frumvarpið í beinni andstöðu við markmið sem ríkisstjórnin hefði sett sér í lýðheilsumálum hvað varðaði áfengis- og vímuefnavarnir. Þar kæmi fram að ein mikilvægasta aðferðin væri takmörkun aðgengis að vímugjöfum eins og áfengi.

Kristján Þór sagðist ekki hafa litið svo á að aðgengi að áfengi á Íslandi væri vandamál. Nýir veitingastaðir hafi sprottið upp síðustu árin og einokunarfyrirtækið ÁTVR hefði fjölgað sölustöðum og auglýst sig opinberlega.

Sagðist hann jafnframt ekki vera talsmaður þess að sala á þessum löglega vímugjafa sem áfengi sé væri best komin í höndum ríkisstarfsmanna heldur treysti hann starfsmönnum veitingastaða til að bera áfengi á borð. Þrátt fyrir þessa stöðu hafi gríðarlegur árangur náðst í áfengisvörnum, sérstaklega á meðal ungmenna.

Ærumeiðandi ummæli ráðherrans

Gekk Ólína þá á ráðherrann um hvort að hann hygðist samþykkja frumvarpið og hvort honum væri alvara með því að ganga þannig í berhögg við markmið ríkisstjórnarinnar í lýðheilsumálum.

Þá sakaði Kristján Þór þingmanninn um að leggja rangt út af orðum sínum og annarra og mótmælti því að hafa talað gegn stefnu ríkisstjórnarinnar. Sagði hann ekki tímabært að lýsa opinberra afstöðu til frumvarps sem væri ekki enn komið út úr meðferð þingnefndar.

Ólína kvaddi sér hljóðs eftir svar ráðherrans undir liðnum fundarstjórn forseta og sagði ummæli Kristján Þórs að hún legði í vana sinn að hafa rangt eftir fólki ærumeiðandi. Harmaði hún að þurfa að koma aftur upp í ræðustól til þess að bera af sér slíkar sakir.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert