Handtaka lögreglumanns á frívakt til saksóknara

Lögreglumaðurinn handtók mann í Smáralindinni fyrir helgi, en hann var …
Lögreglumaðurinn handtók mann í Smáralindinni fyrir helgi, en hann var að abbast upp á viðskiptavini. Lögreglumaðurinn var óeinkennisklæddur og notaðist við varnarúða. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent mál til rannsóknar hjá héraðssaksóknara þar sem lögreglumaður á frívakt handtók karlmann í Smáralind og beitti varnarúða. Var lögreglumaðurinn óeinkennisklæddur, en maðurinn sem var handtekinn var að sögn sjónarvotta í annarlegu ástandi. Í tilkynningu frá lögreglu kom fram að hann hafi  verið að abbast upp á viðskiptavini í verslunarmiðstöðinni.

Óvenjulegt mál

Kristján Ólafur Guðnason, starfandi yfirlögregluþjónn á almennri deild hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, segir að málið hafi verið um margt óvenjulegt. „Mál þetta, sem er um margt óvenjulegt með vísan til þess að lögreglumaður varð fyrir ofbeldisbroti utan vinnutíma og eins notkun á varnarbúnaði við sama tilvik, hefur verið sent héraðssaksóknara til skoðunar og þóknanlegrar meðferðar,“ segir Kristján. Tekur hann fram að lögreglan muni ekki tjá sig frekar um málið meðan beðið er niðurstöðu.

Frétt mbl.is: Var yfirbugaður með varnarúða

Segir hann að vegna atviksins hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu til skoðunar hvort setja þurfi skýrari vinnureglur um vörslu valdbeitingartækja utan vinnutíma. Segir Kristján að stefnt sé að því að ljúka þeirri vinnu fljótlega.

Í veikindaleyfi en mætir til vinnu á ný

Aðspurður um stöðu lögreglumannsins meðan á rannsókn stendur segir Kristján að hann hafi verið í veikindaleyfi eftir átökin við manninn. Segir hann að lögreglumaðurinn hafi þurft að leita sér aðhlynningar á spítala eftir þau. Staðfestir hann jafnframt að lögreglumaðurinn muni koma til starfa að leyfinu loknu.

Handtakan var við Lyfju í Smáralind.
Handtakan var við Lyfju í Smáralind. mbl.is/Ernir

Eins og mbl.is greindi frá á föstudaginn sögðu sjónarvottar sem rætt var við að maðurinn hafi komið inn í verslun Lyfju í Smáralind þar sem hann rakst, að því er virðist með vilja, í starfsmann. Lögreglumaðurinn kom síðan inn í verslunina í kjölfarið og fór að ræða við manninn. Þeir hafi farið að deila sem endaði með því að maður­inn sló til lög­reglu­manns­ins. Átök hafi þá brot­ist út sem enduðu með því að lög­reglumaður­inn greip til varnarúðans, sem fyrr seg­ir.

Loka þurfti versl­un­inni um stund eft­ir at­vikið, en skola þurfti úðann úr aug­um manns­ins, þrífa versl­un­ina auk þess sem ör­ygg­is­verðir og lög­regla kom á vett­vang til að taka skýrsl­ur af viðstödd­um. Þá spurðu sjónvarvottar að því hvort það væri eðlilegt verklag að lögreglumaður á frívakt væri með varnarúða á sér.

Notkun úðavopna aðeins þegar vægari aðferðir duga ekki

Fram kem­ur í regl­um um vald­beit­ingu lög­reglu­manna og meðferð og notk­un vald­beit­ing­ar­tækja og vopna að lög­reglu sé ein­ung­is heim­ilt að nota úðavopn þegar væg­ari aðferðir duga ekki til þess að yf­ir­buga mótþróa manns við hand­töku. Enn­frem­ur mega þeir ein­ir nota úðavopn sem hlotið hafa slíka þjálf­un.

Tekið er fram í regl­un­um að beit­ing úðavopns telj­ist væg­ari aðferð en beit­ing kylfu. Ávallt þurfi þó að hafa í huga að lög­reglu­menn verði að geta rök­stutt beit­ingu úðavopna og ljóst þurfi að vera að önn­ur væg­ari úrræði hafi ekki dugað. Ekkert kemur fram í reglugerðinni um hvort lögreglumenn megi beita úðanum óeinkennisklæddir eða hvort lögreglumenn megi bera slíkt á frívakt.

Frétt mbl.is: Var að abbast upp á viðskiptavini

Frétt mbl.is: Var yfirbugaður með varnarúða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert