„Menn eru í hálfgerðu sjokki“

Húsið að Grettisgötu 87 er illa farið eftir eldsvoðann þar …
Húsið að Grettisgötu 87 er illa farið eftir eldsvoðann þar á mánudagskvöld. mbl.is/Eggert

Lyftingatæki Steve Gym sem var í öðrum enda hússins við Grettisgötu 87 sem brann í fyrrinótt sitja þar enn rykfallin en útséð er um að starfsemi lyftingasalarins haldi áfram þar, að sögn Stefáns Hallgrímssonar, þjálfara Steve Gym. Hann útilokar ekki að byrja aftur á nýjum stað.

Miklar skemmdir urðu á iðnaðarhúsnæðinu þegar eldur kom upp þar á mánudagskvöld. Steve Gym hefur verið starfrækt þar í um tuttugu ár en þar hefur fámennur hópur kraftlyftingamanna haldið til undir handleiðslu Stefáns sem í daglegu tali er kallaður Steve.

„Það er öllum illt við að sjá svona, er það ekki? Þetta var dálítið óhuggulegt að sjá þetta,“ segir Stefán um hvernig honum varð við að sjá eldinn læsa sig í húsið.

Enginn hefur enn fengið að fara inn í bygginguna vegna hættu á að hrynji úr þaki hennar. Stefán segist hins vegar hafa séð glitta í rykfallin tækin í morgun.

„Það er örugglega ekki hægt að halda áfram þarna. Þakið er farið af húsinu,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.

Hópurinn sem hefur vanið komur sínar í lyftingasalinn hjá Stefáni eru að velta fyrir sér framhaldinu og útilokar hann ekki að halda áfram annars staðar. Það fari eftir vilja mannskapsins.

„Þeir eru eitthvað að pæla í þessu strákarnir. Sjálfsagt vilja þeir halda áfram og fara með tækin eitthvað annað, það sem eftir er af þeim. Þetta er allt óljóst. Menn eru í hálfgerðu sjokki eftir þetta,“ segir Stefán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert