Ráðuneytið flytur vegna myglusvepps

Velferðarráðuneytið er staðsett í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík.
Velferðarráðuneytið er staðsett í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík. mynd/Velferðarráðuneytið

Velferðarráðuneytið flytur úr Hafnarhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík innan tíðar og er nú leitað að nýju húsnæði fyrir það.

Þetta var tilkynnt á starfsmannafundi ráðuneytisins í dag í samræmi við sameiginlega ákvörðun viðkomandi ráðherra og húseigandans, Faxaflóahafna, um að rifta gildandi leigusamningi um húsið.

Ástæða þessa er sú að ekki hefur tekist að uppræta myglusvepp í þeim hluta hússins þar sem er starfsemi velferðarráðuneytisins. Verkfræðistofan EFLA telur að ráðast þurfi þar í verulegar framkvæmdir og endurbætur, segir í tilkynningu. 

Í greinargerð EFLU um bráðabirgðaniðurstöður segir meðal annars:

„Niðurstöður rannsókna gefa sterkar vísbendingar um að loftgæðum innandyra í suðurhluta 4. hæðar sé ábótavant þar sem rakavandamál eru víða og mygluvöxtur kominn í byggingarefni á nokkrum stöðum. Skemmdir eru einkum staðsettar í gólfi, veggjum og þaki upp við útveggi hússins og lekavandamálum tengt turnum (5. hæð) í þaki.“

Hafnarhúsið var reist árið 1933 og fjórðu hæðinni bætt við um 1960. Húsinu hefur verið haldið vel við og brugðist var strax við þegar grunur vaknaði um myglusvepp á þriðju hæðinni. Nú er komið á daginn að vandinn er víðtækari, segir ennfremur í tilkynningu.

Faxaflóahafnir hafa falið verkfræðistofunni EFLU að gera heildarúttekt á ástandi Hafnarhússins og niðurstaða mun liggja fyrir að fáeinum vikum liðnum. Í framhaldinu ákveða Faxaflóahafnir hvernig brugðist skuli við.

Tilkynning frá velferðarráðuneytinu:

„Ákveðið hefur verið að finna velferðarráðuneytinu nýtt húsnæði og er stefnt að því að það flytji úr Hafnarhúsinu við Tryggvagötu innan tíðar. Ákvörðunin byggist á sameiginlegri niðurstöðu eiganda Hafnarhússins og ráðuneytisins þar sem ástand húsnæðis ráðuneytisins er ófullnægjandi.

Á síðustu árum hefur tvívegis verið ráðist í framkvæmdir á hluta húsnæðisins þar sem velferðarráðuneytið er með aðstöðu sína þar þar sem raki og myglusveppur hafði gert vart við sig. Ekki hefur tekist að uppræta vandann og hefur það verið staðfest með athugun sem Faxaflóahafnir fólu verkfræðistofunni EFLU að gera nýlega.

Þar sem talið er að ráðast þurfi í viðamiklar endurbætur á húsnæðinu hefur það orðið að samkomulagi milli Faxaflóahafna og velferðarráðuneytisins að losa ráðuneytið undan leigusamningi. Leit er hafin að nýju húsnæði fyrir ráðuneytið sem mun flytja sig um set um leið og mögulegt er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert