Ríkið ekki með yfirsýn yfir sín mál

Jón Björnsson, formann starfshóps.
Jón Björnsson, formann starfshóps. Ljósmynd/Skjáskot af vef RÚV

Ríkið og stofnanir þess verja árlega um 140 milljörðum króna í innkaup. Um þriðjungi er varið í að efna þjónustusamninga en tæpir 90 milljarðar fara í kaup á vöru og þjónustu. Skortur á yfirsýn og eftirliti er meðal þess sem veldur því að skattfé er sólundað.

Er þetta meðal þess sem fram kom í umfjöllun Kastljóss í kvöld en þar var rætt við Jón Björnsson, formann starfshóps um árangursríkt samstarf ríkis og einkamarkaðar, og Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann. 

„Ég átti ekki von á því að ríkið hefði einfaldlega ekki yfirsýn yfir hvað það væri að gera,“ sagði Jón í viðtali í þættinum en hann var fenginn til þess vorið 2014 að stýra starfshópi sem fjármálaráðherra skipaði til að skoða innkaupamál ríkisins.

„Það var uppi ákveðið sjónarmið að hið opinbera væri ekki að nýta stærð sína og þá hagræðingarmöguleika sem þeir höfðu,“ sagði Jón. Áðurnefndur starfshópur gerði í vinnu sinni ráð fyrir því að kalla fram gögn um innkaup ríkisins til að fá yfirsýn yfir verkefnið.

„Niðurstaðan var hins vegar sú að ríkið hefur dapra yfirsýn yfir sín vörukaup almennt,“ sagði Jón og benti á að hópurinn endaði á því að hringja í seljanda vörunnar til þess einfaldlega að spyrja hvað ríkið hefði keypt. „Þetta er fljótasta leiðin.“

Tekin eru dæmi um sex vöruflokka í skýru hópsins og tilraunir til að finna samanburðahæfar upplýsingar um innkaup ríkisins á þeim. Einungis einn þessara flokka reyndist innihalda tiltækar upplýsingar hjá ríkinu sjálfu, þ.e. kaup á tölvubúnaði.

Í tveimur tilfellum þurfti að leita til seljandans eftir upplýsingum, þ.e. um pappírskaup og skrifstofuhúsgögn. Í þremur vöruflokkum fengust engar upplýsingar. Átti það við um flugfargjöld og viðskipti við bílaleigur, en einnig hugbúnaðarviðskipti.

Er því, samkvæmt þætti Kastljóss, engin yfirsýn yfir innkaup 200 stofnana fyrir tugi milljarða króna á ári hverju.  

Guðlaugur Þór segist þeirrar skoðunar að ef lækka eigi framlög til þeirra stofnana sem ekki bjóða út. „En þegar við ætluðum að leggja það til í síðustu fjárlögum kom í ljós að okkur vantaði nægjanlega góðar upplýsingar til að byggja á svo hægt yrði að framkvæma það,“ sagði hann.

Nálgast má þátt Kastljóss í heild sinni hér.

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður.
Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður. Ljósmynd/Skjáskot af vef RÚV
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert