Skora á hólm ríkjandi hugmyndir

Finnborg Salome á fundinum í hádeginu.
Finnborg Salome á fundinum í hádeginu. Mynd/BSRB

Finnborg Salome Steinþórsdóttir, doktorsnemi í kynjafræði, ræddi á hádegisfundi í gær um það hvort kynferðisleg áreitni sé óhjákæmileg í samfélagi okkar.

„Það er engin tilviljun að umræðan um kynferðislega áreitni hefur aukist á sama tíma og konur hafa verið að hasla sér völl á opinbera sviðinu,“ sagði Finnborg.

Fundur um kynbundna- og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum var haldinn af Alþýðusambandi  Íslands, BHM, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráði í hádeginu á Grand Hótel.

Þórunnn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, var á meðal fundargesta.
Þórunnn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, var á meðal fundargesta. Mynd/BSRB

Lítið gert úr brotunum

Finnborg vísaði í rannsókn sem hún gerði í samstarfi við ríkislögreglustjóra en niðurstöður hennar voru birtar fyrir þremur árum. Þar kom fram að 50% lögreglumanna sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi eða í tengslum við starf sitt tilkynntu það ekki vegna þess að þeir töldu áreitnina ekki nægilega alvarlega.

Frétt mbl.is: Konur verða fyrir kynferðislegri áreitni

Að sögn Finnborgar er það þekkt vandamál að lítið er gert úr brotum tengdum kynferðislegri áreitni og að þolendur spegli sig jafnan í ríkjandi samfélagshugmyndum. Einnig sé ábyrgðin oft færð frá geranda yfir á þolanda og að gerendur séu oft sjúkdómsvæddir, líkt og þeir ráði því ekki sjálfir hvort þeir brjóti af sér.

Skora á hólm ríkjandi samfélagshugmyndir

Hún telur að Íslendingar séu hugsanlega byrjaðir að horfast í augu við vandann. Betur má samt ef duga skal. „Við verðum að hætta að samþykkja kynferðislega áreitni. Við verðum að skora á hólm þessar ríkjandi samfélagshugmyndir sem gegnsýra allt samfélagið,“ sagði hún.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir. Mynd/BSRB

Meiri ábyrgð atvinnurekenda

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, steig á stokk á fundinum og talaði um breytt lagaumhverfi varðandi kynbundna – og kynferðislega áreitni þar sem ábyrgð atvinnurekenda hefur verið gerð meiri.  Sagði hún að verulegar breytingar hefðu verið gerðar frá áðurgildandi reglugerð þar sem kynbundin- og kynferðisleg áreitni nær yfir stærra svið en áður.

Í ræðu hennar kom fram að frá árinu 2004 hafa tvö mál sem varða kynbundna- eða kynferðislega áreitni verið tekin fyrir hjá kærunefnd jafnréttismála. Sagði hún þörf á að opna umræðuna í þessum málaflokki og í tilefni þess hafi verið gefinn út netbæklingur þar sem ýmsar upplýsingar má sjá um allt sem þessu tengist.

Fundarsalurinn á Grand Hótel var þétt setinn í hádeginu.
Fundarsalurinn á Grand Hótel var þétt setinn í hádeginu. Mynd/BSRB

Úrræði fyrir einstaklinga

Í bæklingnum er farið yfir skilgreiningu kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis. Þar má finna dæmi um þá hegðun sem fellur undir þessar skilgreiningar og skyldur atvinnurekenda vegna slíkrar hegðunar.

Þá er einnig farið yfir úrræði fyrir einstaklinga sem telja sig hafa orðið fyrir slíkri hegðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert