Vildu halda honum í gæsluvarðhaldi

Stúdentagarðarnir við Sæmundargötu.
Stúdentagarðarnir við Sæmundargötu. Styrmir Kári

Karlmaðurinn sem hefur játað að hafa stungið mann í bakið með hníf við Sæmundargötu í Reykjavík aðfaranótt sunnudags hefur verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi. Lögregla fór fram á að gæsluvarðhald yfir manninum yrði framlengt en héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði því.

Farið var fram á að maðurinn myndi sæta gæsluvarðhaldi í fjórar vikur á grundvelli almannahagsmuna en áður hafði hann verið útskurðaður í gæsluvarðhald í hálfa viku á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og var sá úrskurður þegar í stað kærður til Hæstaréttar.

Í 2. mgr. 95. greinar sakamálalaga segir um gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna:

Einnig má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a–d-liðar 1. mgr. séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Maðurinn játaði brot sitt í gær og er hnífurinn sem hann notaði til að stinga fórnarlambið í höndum lögreglu. Líðan þess sem stunginn var er óbreytt og er honum enn haldið sofandi í öndunarvél. Hann er líkt og áður þungt haldinn.

Samkvæmt heimildum mbl.is er árásarmaðurinn nemandi í Háskóla Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert