Vissu ekki af íbúðinni í húsinu

Séð inn í húsið að Grettisgötu 87.
Séð inn í húsið að Grettisgötu 87. mbl.is/Eggert

Slökkvilið vissi ekki að búið væri í iðnaðarhúsnæðinu að Grettisgötu 87 þar sem eldur kom upp á mánudagskvöld. Myndlistarmaður hafði aðstöðu í húsinu og bjó einnig í rýminu, þ.e. ósamþykktri íbúð, ásamt sambýliskonu sinni. Í húsinu voru einnig tvö verkstæði, líkamsræktarsalur og geymsla fyrir ferðavagna. 

Slökkviliðsstjóri segir þetta vera eitt af því sem geri vinnu slökkviliðsmanna snúa. Slökkvilið hafi reynt að halda skrá yfir svokallaðar óleyfisíbúðir en þær eru ónákvæmar þar sem afar breytilegt er hvort búið sé í rýmunum eða ekki.

Hjá Tryggingamiðstöðinni, sem vátryggir fasteignina og hluta þess rekstrar sem þar er staðsettur, fengust þau svör að ekkert sé því til fyrirstöðu að íbúar í ósamþykktu húsnæði geti keypt innbústryggingu, brunabótatryggingu eða aðrar tryggingar sem snúa að íbúðarhúsnæði.

Hjá Sjóvá fengust þær upplýsingar að hægt væri að tryggja ósamþykkt íbúðarhúsnæði. „Það er lagaskylda að brunatryggja húseignir þannig að allt húsnæði sem komið er með brunabótamat er brunatryggt. Húseigendur geta síðan tekið fasteigna – og húseigendatryggingu fyrir húsnæðið og íbúar tryggt sitt  innbú líka,“ segir í skriflegu svari frá Sjóvá. 

Tjónaskoðunarmenn hafa ekki enn fengið aðgang að vettvangnum og hefur því ekki verið hægt að leggja mat á tjónið. mbl.is hefur ekki náð sambandi við lögreglu í morgun til að fá upplýsingar um stöðu rannsóknarinnar. 

Frétt mbl.is: „Allt sem ég og Rós áttum er farið“

Breytilegt hvort búið sé í húsunum

Þegar slökkvilið kom á vettvang á miðvikudagskvöld logaði mikill eldur í húsinu. Ekki þótti öruggt að senda reykkafara inn, eða slökkviliðsmenn til að berjast við eldinn þaðan. Í húsinu var að finna hættuleg efni og þar að auki var það byggt úr strengjasteypu og því hætta á hruni.

Töluverður munur er á verklagi slökkviliðs þegar það er kallað til vegna bruna í íbúðarhúsnæði og þegar kviknað hefur í iðnaðarhúsnæði. Í dag og síðustu ár er aftur á móti algengt að búið sé í ósamþykktum íbúðum í iðnaðarhúsnæði og því þarf slökkvilið alltaf að hafa í huga að þar gæti leynst fólk sem þarf að bjarga.

Gerir þetta vinnu slökkviliðsmanna snúa. Slökkvilið hefur reynt að halda skrá yfir svokallaðar óleyfisíbúðir en þær eru ónákvæmar þar sem afar breytilegt er hvort búið sé í rýmunum eða ekki.

Hefðu þurft að fara í áhættusama aðgerð

„Þegar hrunið kom áttum við von á því að þetta myndi kannski lagast en þetta voru mikið verkamenn. Síðan eftir hrun kom bara upp annar vandi, húsnæðisvandi. Eftir það, ef eitthvað er, hefur þetta aukist. Við vorum að reyna að halda utan um þetta en svo sáum við að skýrslur okkar voru ónákvæmar af því að þetta var svo breytilegt. Einn daginn var einhver þarna, en næsta dag ekki. Það var ógerningur fyrir okkur að reyna að halda utan um þetta,“ segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri í samtali við mbl.is.

Hann segir að strax hafi verið tekin ákvörðun um að senda ekki reykkafara inn í húsið að Grettisgötu 87 þar sem það hafi verið mjög hættulegt.

„Aftur á móti, ef við hefðum vitað af íbúðum eða fengið upplýsingar um að þarna væru íbúðir og þetta hefði verið um blánótt, hefðum við þurft að fara í áhættusama aðgerð til þess að leita af okkur allan grun. Við fórum ekki í þær aðgerðir af því að þetta var það snemma kvölds,“ segir Jón Viðar.

Fyrir nokkrum árum voru gefnir út grænir límmiðar sem hægt er að setja í glugga á húsnæði þar sem svokallaðar óleyfisíbúðir leynast og er hægt að nálgast þá hjá slökkviliði. Á annarri hliðinni, þeirri sem blasir við slökkviliðsmönnum þegar þeir koma að húsinu, segir að björgun sé forgangsatriði. Á hinni hliðini eru aftur á móti upplýsingar á fjórum tungumálum um hvernig hringja eigi í neyðarlínuna.

Húsið skemmdist verulega í eldinum.
Húsið skemmdist verulega í eldinum. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert