Binda vonir við lægðirnar

Frá Grafarholtsvelli vorið 2014 þegar golfvellir komu almennt illa undan …
Frá Grafarholtsvelli vorið 2014 þegar golfvellir komu almennt illa undan vetri. mbl.is/Styrmir Kári

Vallarstjórar golfvalla eru líklega með þeim fáu sem taka fagnandi lægðunum sem ganga yfir landið næstu daga. Með hlýindunum og úrkomunni sem fylgir þeim tekur snjó og klaka upp af völlunum. Á völlum GKG má finna rotnunarlykt sums staðar en vallarstjórinn þar bindur miklar vonir við lægðirnar.

Margir golfvellir komu illa undan vetrinum 2013 til 2014 en þá lá þykkur klaki yfir þeim í allt að þrjá mánuði. Við slíkar aðstæður fær grasið undir ísnum ekki nægilegt súrefni og kelur. Þannig mátti sjá brunasár á brautum og flötum ýmissa valla um vorið og fram á sumarið.

Þeir Guðmundur Árni Gunnarsson, vallarstjóri Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG) og Birkir Már Birgisson, yfirvallastjóri Golfklúbbs Reykjavíkur (GR) eru sammála um að ástandið nú sé mun betra en það var eftir veturinn fyrir tveimur árum. Þá lagði megna rotnunarlykt frá sumum völlum.

„Þá var ég með tvo starfsmenn daglega að brjóta ís og djöflast. Núna kom klakinn svona um miðjan desember en í lok janúar náðu allar flatirnar hjá okkur andanum og losuðu sig við allan klaka. Núna er þetta langt komið á flötunum. Það eru helstu svæðin sem við vinnum í til að brjóta af,“ segir Guðmundur Árni.

Á nokkrum svæðum á völlunum tveimur sem GKG rekur þar sem trjálundir halda klaka í skjóli fyrir suðaustanáttum stefnir í einhver leiðindi, að sögn vallarstjórans.

„Það er komin smá lykt þar en flatirnar okkar, teljum við, eru að sleppa alveg við þetta,“ segir Guðmundur Árni.

Þurfa ekki að setja gallann daglega í þvott

Lyktin er þó ekkert í líkingu við það sem var fyrir tveimur árum, að sögn Birkis Más sem hefur umsjón með Grafarholtsvelli og völlum félagsins við Korpúlfsstaði.

„Við vorum að brjóta af flöt hjá okkur um daginn. Þetta var yfirleitt þannig að þegar þú komst heim til þín settirðu allan gallann í þvottavél því það var svo vond lykt af honum en þú þarft þess ekki núna,“ segir hann og vísar til vetrarins 2013 til 2014.

Einhverjir blettir eru þó á vellinum en Birkir Már segir að alltaf megi búast við örlitlum skemmdum hér og þar eftir vetur.

„Við erum samt vongóðir. Það er hiti í kortunum og það fer allt að leysa upp. Við höfum ekki stórar áhyggjur þó að maður hafi náttúrulega alltaf áhyggjur af völlunum,“ segir hann.

Guðmundur Árni hjá GKG segir lykilatriði að fá sómasamlegt vor til að vellirnir fái svigrúm til að ná sér. Þá taki það einhverjar vikur fyrir kalbletti að jafna sig.

„Við bindum miklar vonir við þessar lægðir sem eru að fara ganga yfir landið núna,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert