Dæmdur fyrir árás á sambýliskonu

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á fyrrverandi sambýliskonu sína og barnsmóður í september 2014. Hann er ennfremur dæmdur til að greiða konunni 400.000 kr. í miskabætur og 1,5 milljónir kr. í sakarkostnað.

Maðurinn hefur ekki gerst áður sekur um refsiverða háttsemi.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði manninn 21. apríl í fyrra fyrir líkamsárás gagnvart konunni, en árásin átti sér stað 1. september 2014 á heimili hans. Hann var sakaður um að hafa hrint henni utan í vegg sem við það brotnaði. Konan hlaut yfirborðsáverka á framvegg brjóstkassa, mar á öxl og upphandlegg, yfirborðsáverka á hársverði, tognun og ofreynslu á háls- og brjósthrygg.

Konan krafði manninn um að greiða henni eina milljón í miskabætur. 

<span>Maðurinn neitaði sök. Hann sagði að konan og vin hennar hafa ráðist inn til hans umrætt sinn. Vinur konunnar hafi kastað honum utan í vegg, sem brotnað hafi við árásina. Hann hafi verið hvattur áfram af konunni. Vinur konunnar hefði einnig tekið hann hálstaki og lamið hann í síðuna og búk.</span>

<span>Fram kemur í dómi héraðsdóms, að konan hafi lýst </span>atvikum þannig að hún hafi smeygt sér fram hjá ákærða er hann hafi opnað útidyrahurðina. Hafi hún snúið sér við og maðurinn þá hrint henni utan í vegg, sem brotnað hafi við árásina. Vinur hennar hafi gengið á milli og hrint manninum inn gang íbúðarinnar, sem hafi fallið við þetta.

Héraðsdómur segir að framburðir vinarins og móður konunnar, um árás fyrrverandi sambýlismannsins á konuna, séu í samræmi við framburð hennar. Ákærði og konan leituðu bæði á slysadeild í beinu framhaldi af hinni ætluðu árás. Að auki leitaði konan á heilsugæslustöð tveim dögum síðar. Læknisvottorð vegna þessara skoðana liggja frammi í málinu.

Héraðsdómur segir, að við mat á sök sé til þess að líta að áverkar er konan greindist með voru nokkuð meiri en áverka þeir er maðurinn greindist með eftir samskipti hans við vin konunnar. Þá mat héraðsdómur framburð konunnar trúverðugan.

Dómurinn taldi því óhætt að leggja trúverðugan framburð konunnar til grundvallar niðurstöðu og taldi hafið yfir vafa að maðurinn hefði hrint henni utan í vegg, sem við það hafi brotnað, með þeim afleiðingum að konan hlaut þá áverka er í ákæru greinir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert