Ekki réttlæti að halda þrjú mót á Suðurlandi

Landsmót eru mikil hátíð hestamanna og þau draga að sér …
Landsmót eru mikil hátíð hestamanna og þau draga að sér þúsundir gesta sem fylla brekkuna á hápunktum mótanna. mbl.is/Eva Björk

„Ég átta mig ekki alveg á hinu félagslega réttlæti. Þetta eru landssamtök og verða að taka tillit til þess. Það er mín fyrsta hugsun. Mér finnst afar dapurt að þarna er verið að setja þrjú landsmót í röð á Suðurland,“ segir Hólmgeir Valdemarsson, formaður Hestamannafélagsins Léttis á Akureyri. Hann var spurður um viðbrögð við þeirri ákvörðun stjórnar Landssambands hestamannafélaga að velja landsmótinu 2020 stað á Hellu og ráðstafa mótinu 2022 til Spretts í Kópavogi og Garðabæ.

Landsmót verður á Hólum í Hjaltadal í sumar en síðan verða þrjú næstu mót á Suðurlandi. Hólmgeir segir að sér finnist ákvörðunin ófagleg og eðlilegt félagslegt réttlæti fái ekki að njóta sín. Bendir hann í því sambandi á að öll hestamannafélögin í landshlutanum hafi stutt umsókn Hestamannafélagsins Léttis og Akureyrarbæjar auk Hestamannafélagsins Freyfaxa á Fljótsdalshéraði.

Óskað eftir rökstuðningi

Hólmgeir segir að Léttismenn hafi verið að funda um niðurstöðu málsins enda sé mikil undrun á svæðinu vegna þess. Ákveðið hafi verið að óska eftir forsendum þess að umsókn félagsins um að halda mót 2020 eða 2022 var hafnað.

„Við töldum okkur vera með mjög sterka umsókn með Akureyrarbæ á bak við okkur og fjárhagslega sterkt hestamannafélag. Aðrir þættir virðast hafa ráðið meiru við þessa ákvörðun,“ segir Hólmgeir.

Landsmót var haldið á Melgerðismelum í Eyjafirði á árinu 1998 og síðan hafa Eyfirðingar ekki komist inn í röðina. „Það virðist vera sama hvað við Eyfirðingar og Akureyringar bjóðum, við komumst aldrei að.“

Nýtt mótssvæði á Akureyri

Við umsóknina nú buðu Akureyringar fram nýtt mótssvæði sem byggt hefur verið upp í útjaðri bæjarins. Þar er risin ein stærsta reiðhöll landsins og góður völlur. Stutt er í svæði Akstursíþróttafélags Akureyrar og geta hestamenn fengið afnot af því á meðan á landsmóti stendur.

Hólmgeir segir að svæðið bjóði upp á mikla möguleika og lítið þurfi að framkvæma til viðbótar til að taka við landsmóti. Þó þurfi að setja upp áhorfendabekki og útbúa annan keppnis- og sýningarvöll.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert