Látin tæma vasa fyrir framan viðskiptavini

Fjölskyldan var stödd í verslun Bónus í Lóuhólum
Fjölskyldan var stödd í verslun Bónus í Lóuhólum mbl.is/Hjörtur

Hagar voru í dag dæmdir í Hæstarétti til að greiða fimm fjölskyldumeðlimum 200 þúsund krónur í miskabætur vegna háttsemi starfsmanna verslunarinnar.

Um var að ræða móður ásamt dóttur sinni og tveimur börnum systur hennar, auk bróður móðurinnar, sem stödd voru í verslun Bónus í Lóuhólum. Voru þau stöðvuð af starfsmönnum á leið sinni út úr versluninni vegna gruns um þjófnað, en grunurinn reyndist ekki á rökum reistur.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að starfsmenn verslunarinnar hafi gert öllum fjölskyldumeðlimum að tæma vasa sína í opnu rými verslunarinnar og fyrir framan aðra viðskiptavini.

Segir Hæstiréttur að þessi háttsemi starfsmannanna hafi verið meiðandi og falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu fjölskyldumeðlimanna og æru þeirra.

Þótt játa verði verslunareigendum ákveðið svigrúm við eftirlit með þjófnaði úr verslunum sínum, beri þeim að haga verklagi við eftirlitið á þann hátt að ekki væri gengið lengra en þörf krefði, og að nærgætni og háttvísi sé gætt.

Högum var því gert að greiða hverjum fjölskyldumeðlim fyrir sig 200.000 krónur í miskabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert