Ekkert bendi til þess að húsið sé ónýtt

Tryggingamiðstöðin vátryggir fasteignina og rekstur Réttingaverkstæðis Þórarins.
Tryggingamiðstöðin vátryggir fasteignina og rekstur Réttingaverkstæðis Þórarins. mbl.is/Eggert

Starfsmenn Tryggingamiðstöðvarinnar vinna nú hörðum höndum að því að tæma húsnæðið að Grettisgötu 87 sem varð illa úti í bruna á mánudagskvöld.

Ekki verður hægt að meta tjónið á fullu fyrr en búið er að tæma húsið og gera mat á innbúi og húsnæðinu sjálfu. Niðurstöðu tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að vænta eftir helgi.

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakaði vettvanginn á miðvikudag. Því næst hófust starfsmenn tryggingafélaga handa við að fjarlægja það sem í húsinu var, þar á meðal bíla, tæki, verkfæri, lausafé og innanstokksmuni.

Tryggingamiðstöðin vátryggir fasteignina og rekstur Réttingaverkstæðis Þórarins. Samkvæmt upplýsingum frá Kjartani Vilhjálmssyni, framkvæmdastjóra tjónaþjónustu TM, er brunabótamat hússins tæplega 200 milljónir.

Ekki liggur fyrir hvert ástandið er á húsinu en Kjartan segir að ekkert bendi til þess að það sé ónýtt. Hann bendir þó á að ákvörðun um uppbyggingu sé í höndum eigenda og skipulagsyfirvalda.

Samkvæmt upplýsingum frá Jóhanni Karli Þórissyni aðstoðaryfirlögregluþjóni liggur ekki fyrir hvort um íkveikju hafi verið að ræða. Niðurstöðu tæknideildar er að vænta eftir helgi. Lögregla er búin að hafa uppi á báðum mönnunum sem leitað var í kjölfar brunans. Annar sætir gæsluvarðhaldi en hinum var sleppt í gær að lokinni skýrslutöku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert