Fimm stórmeistarar efstir og jafnir

Gawain Jones, til hægri á myndinni, var efstur fyrir umferðina …
Gawain Jones, til hægri á myndinni, var efstur fyrir umferðina ásamt Abhijeet Gupta.

Nóg var um að vera í umferð dagsins á GAMMA Reykjavíkurskákmótinu í Hörpu. Stórmeistararnir Gawain Jones (2645) frá Englandi og Abhijeet Gupta (2634) frá Indlandi voru efstir fyrir umferðina og tókust á um forystuna.

Gawain, sem er þekktur fyrir kraftmikla taflmennsku og fjörugar leikfléttur, sat á friðarstóli og gerðu þeir félagar átakalítið jafntefli. Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson (2572) var efstur Íslendinga fyrir umferðina og mætti hinum ungverska GM Richard Rapport (2720) á þriðja borði.

Sá ungverski, sem er talsvert stigahærri, reyndist Hjörvari of stór biti og fór svo að lokum að hann hafði sigur. 

Bragi efstur Íslendinga

Talsvert var af fjörugum skákum og óvæntum úrslitum, en nefna má að svissneski alþjóðlegi meistarinn Alexandre Vuilleumier (2366) lagði hinn unga og efnilega Aryan Tari (2553) og Agnar Tómas Möller (1882) hafði betur gegn Thomas Lochte (2067).

Fimm stórmeistarar eru efstir og jafnir eftir umferðina og alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson (2419) er efstur Íslendinga í 6. - 29. sæti með 4 vinninga. Hann mætir ítalska stórmeistaranum Sabino Brunello (2567) í 6. umferð, sem hefst kl. 12 á morgun í Hörpu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert