Hámarksgreiðslur verði 600 þúsund

mbl.is/Eggert

Lagt er til að hámarksgreiðslur foreldris úr Fæðingarorlofssjóði verði 600.000 kr. á mánuði og að tekjur allt að 300.000 kr. á mánuði skerðist ekki, líkt og nú er. Starfshópur um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum skilaði félags- og húsnæðismálaráðherra niðurstöðum sínum í dag. 

Þetta kemur fram á vef velferðarráðuneytisins.

Þar segir, að í gildandi kerfi fái foreldri fæðingarorlofsgreiðslur sem nemi 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu tímabili, en þó aldrei hærri upphæð en 370.000 kr. á mánuði.

Tillögurnar gera ráð fyrir því nýmæli að tekjur foreldris að 300.000 krónum á mánuði skerðist ekki en að foreldrar fái 80% af þeim viðmiðunartekjum sem eru umfram 300.000 kr. Miðað er við að hámarksgreiðsla í fæðingarorlofi hækki úr 370.000 kr. á mánuði í 600.000 kr. á mánuði.

Gert er ráð fyrir að kostnaður Fæðingarorlofssjóðs verði 10,7 milljarðar króna árið 2017 vegna þessara breytinga og um 12,2 milljarðar kr. á ári eftir það. Miðað við óbreytt fyrirkomulag er  áætlað að útgjöld sjóðsins verði 8,8 milljarðar króna á þessu ári.

Lagt er til að þessar breytingar komi til framkvæmda 1. janúar 2017. 

Samanlagður réttur foreldra verði lengdur úr 9 mánuðum í 12

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að mikilvægt sé að auka samfellu frá þeim tíma sem fæðingarorlofi foreldra lýkur þar til barn kemst í leikskóla. Lagt er til að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur úr 9 mánuðum í 12. Tíu mánuðir skiptist til helminga milli foreldra barns en tveir mánuðir verði sameiginlegir.

Lagt er til að lenging fæðingarorlofs komi til framkvæmda í áföngum frá 1. janúar 2019 til 1. janúar 2021.

Áætlað er að kostnaðarauki Fæðingarorlofssjóðs vegna lengingar fæðingarorlofsins geti numið á bilinu 4,45 – 5,15 milljarðar króna.

Ekki náðist samstaða um allar tillögurnar

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði starfshóp til að móta tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum í desember 2014. Skýrsla með greinargerð og tillögum að breytingum var kynnt ráðherra í dag.

Formaður hópsins var Birkir Jón Jónsson en auk hans áttu þar sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Allir fulltrúarnir standa að baki skýrslu hópsins en ekki náðist samstaða um allar tillögurnar, líkt og fram kemur í fyrirvörum með lokaskýrslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert