Fá samviskubit yfir kláminu sem þeir horfa á

Áhrif kynlífsvæðingar á stúlkur er m.a. átraskanir, þunglyndi, lítið sjálfstraust og skömm á eigin líkama. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur, kynjafræðikennara við Borgarholtsskóla á málþingi sem haldið var af nem­end­um í viðburða- og verk­efna­stjórn­un á Menntavís­inda­sviði Há­skóla Íslands. Yf­ir­skrift málþings­ins var  „Ef þú ekki tott­ar, þú dag­ar upp og drepst!“ en það var um kyn­hegðun, klám­væðingu og jafn­rétt­is­bar­áttu ungs fólks.

Að sögn Hönnu nær hugtakið kynlífsvæðing yfir bæði jákvæða og neikvæða þætti. Það góða við hana er opin um ræða um kynferðismál og aukin fræðsla en það neikvæða er klám og klámvæðing. Með klámvæðingu eru konur skilgreindar út frá kynþokka fremur en öðru og er kynlíf gert að neysluvöru. 

Hanna vitnaði í skilgreiningu Katrínar Önnu Guðmundsdóttur á klámvæðingu þar sem hugtakinu er lýst sem heiti á menningarferli þegar að „klám og hlutverk, myndmál, táknmyndir og orðfæri úr kláminu smeygja sér inn í okkar daglega líf sem normaliserað, samþykkt og jafnvel dáð menningarlegt fyrirbæri .“ Sagði Hanna að klámvæðingu væri m.a. hægt að sjá í tónlistarmyndböndum, tísku, bröndurum og fjölmiðlaefni.

Sýndi klámvæðingu í framhaldsskólum

Sýndi hún á glæru texta úr leikriti framhaldsskóla hér á landi fyrir nokkrum árum síðan. Þar voru m.a. línurnar:

„Kókaín og kerlingar strokkandi limi, það er ekki furða þó að karlinn hann svimi

Kýs helst smápíkur, mæður standa um þær vörð.“

og

„Ef þú ekki tottar þú dagar upp‘ og drepst, verður liðið lík ef það fyrir þér vefst.“

„Hver er andinn sem svífur yfir?“ spurði Hanna og sagði augljósar tengingar við klám í textanum. „Það er augljóst hver er með valdið og hver ekki.“

Nefndi Hanna fleiri dæmi um klámvæðingu í framhaldsskólum og þá m.a. frétt af karlakvöldi í framhaldsskóla þar sem klámmyndir og kynlífsdúkkur voru verðlaun og myndir sem voru notaðar til að auglýsa Salsaball NFFG árið 2012.

 „Það sem ég hef áhyggjur af og það sem keyrir mig áfram er hvert við erum að stefna í þessum kynferðismálum hvað varðar kynhegðun ungmenna,“ sagði Hanna. „Eins fallegt og gott kynlíf er og mikilvægt fyrir okkur öll gerast hlutir oft bakvið luktar dyr sem fólk er ekki alltaf sátt við.“

Nefndi hún bók sem kom út í Kanada fyrir nokkrum árum sem hét „Munnmök eru nýi góða nótt kossinn“. „Þetta er ákveðin staðfesting á því að mörkin eru að færast til. Ef munnmök eru nýi góða nótt kossinn er þá sleikur nýja handabandið?“ spurði Hanna.

Fá samviskubit yfir kláminu sem þeir horfa á

Í erindinu sagðist Hanna ekki muna hvað hún var gömul þegar hún heyrði orðið tott eða endaþarmsmök í fyrsta skiptið en gaf í skyn að hún hafi ekki verið unglingur. „Þetta var bara ekki partur af minni menningu. Núna eru þetta bara hlutir sem krakkar ræða,“ sagði hún en bætti við að það væri mjög ákvætt.

„Það er mjög gott að tala saman um kynlíf og hafa allt upp á borði. En ég hef áhyggjur af vandatengslunum sem eru í kláminu og  þar af leiðandi í klámvæðingunni.“ Nefndi Hanna sem dæmi að karlkyns nemendur sínir hafi komið til sín, fleiri en einn og fleiri en tveir, og sagst hafa fengið samviskubit yfir klámi sem þeir fróuðu sér yfir. „Hversu slæmt er það ef strákar fá samviskubit?“ spurði Hanna.

Hanna vitnaði í rannsókn sem birt er á vísindavefnum þar sem fram kemur að sumir íslenskir strákar byrji að horfa á klám ellefu ára gamlir og sagði að bæði kynin lærðu af klámi. „Ef við gefum okkur að margir strákar byrji að horfa á klám ellefu ára en eru síðan kannski 16 til 18 ára þegar þeir eiga sína fyrstu kynlífsreynslu með öðrum, hvað er klámið búið að gera við hausinn á þeim öll þessi ár?“ spurði Hanna. 

Hanna Björg kennir kynjafræði í Borgarholtsskóla.
Hanna Björg kennir kynjafræði í Borgarholtsskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stúlkur læra að undirskipa sjálfa sig

Bætti hún við að stelpur horfðu líka á klám. „Það eru örugglega margar sem fróa sér yfir því en þær eru líka að læra hvernig þær eiga að vera og hvað eru þær þá að læra? Þær læra að undirskipa sjálfa sig og að veita þjónustu frekar en að vera með stjórn yfir aðstæðunum,“ sagði Hanna og bætti við að stúlkur sem hún hafi kennt hafi komið til hennar og sagst hafa áttað sig á, eftir kynjafræðslu, að þær hefðu verið beittar ofbeldið og farið yfir þeirra mörk. „Þeirra mörk voru bara út í skurði,“ sagði Hanna. „Við erum þannig að við reynum alltaf að standa undir væntingum. Þannig erum við bara.“

Að mati Hönnu fá stúlkur stöðugt skilaboð um að þær séu ekki eins mikils virði og strákar. „Ef við fáum sömu skilaboðin aftur og aftur hvaðanæva af að við séum ekki eins mikils virði og hinn hópurinn þá byrjum við bara að beygja okkur ósjálfrátt, það er að minnsta kosti mikil hætta á þvi.“

Kynferðisleg áreitni orðin eðlileg

Hanna ræddi einnig um mörkin á milli kynferðislegrar áreitni og gríns. Nefndi hún þessi til sönnunar auglýsingu Riddarans ölstofu. „Þetta er dæmi um hversu langt er gengið. Svo er gjarnan sagt, vó hefurðu engan húmor, þetta er fokking djók,“ sagði Hanna og nefndi dæmi úr kennslustofu sinni.

Þá kom stelpa gangandi inn í skólastofuna og strákur á eftir henni. Hann sló stelpuna létt í rassinn fyrir framan Hönnu. „Ég spurði hann bara hvað hann væri að gera og hann sagði „Róleg kona ég er bara að djóka“,“ lýsti Hanna. Sagðist hún hafa litið í augu stelpunnar og séð á henni að hún vildi ekki að Hanna myndi gera mikið mál úr aðstæðunum. Þó sagði hún Hönnu eftir tímann að henni hafi fundist þetta óþægilegt.

„Það er algjörlega óásættanlegt að kynferðisleg áreitni sé orðin svona eðlileg hjá báðum kynjum,“ sagði Hanna. „Það er ekkert að þessum strák, hann er fullkomlega eðlilegur en ofurseldur þeim skilaboðum að hann hafi rétt á þessu. Honum finnst það því svo margir hafa sagt honum það.“

Snýst um vonda menningu, ekki vont fólk

Í erindi sínu sýndi Hanna fjölmargar myndir úr tímaritum og auglýsingum þar sem má sjá skilaboð klámvæðingar. Á einni mynd mátti sjá léttklædda herbergisþernu lykta af karlkynsnærbuxum í auglýsingu JBS nærfataframleiðandans. „Öll möguleg hlutverk kvenna í samfélaginu eru klámvædd,“ sagði Hanna.

Sýndi hún auglýsingu Calvin Klein með karlfyrirsætu sem var ber að ofan og horfði beint í myndavélina. „Þegar að karlar koma naktir fram þá er áhersla lögð á styrkinn og viðhorfið er „fuck you“. Hinsvegar eru  konurnar valdalausar, liggjandi og allavegana og viðhorfið er „fuck me“.“

Að mati Hönnu fá bæði kynin þessi sömu skilaboð í gegnum menninguna, strákar hafa valdið en stelpurnar ekki. Lagði hún áherslu á að allir hópar tæku þátt í þessari menningu.

„Þetta snýst um vonda menningu ekki vont fólk. Við erum öll ofurseld þessu og tökum öll þátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert