Flætt gæti yfir varnargarða

Mynd sýnir hitaspá fyrir morgundaginn klukkan 20, í 2 m …
Mynd sýnir hitaspá fyrir morgundaginn klukkan 20, í 2 m hæð. Mynd/Veðurstofa Íslands

Á morgun er spáð talsverðri rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu samhliða hlýnandi veðri. Einnig mun rigna á norðvesturlandi. Hlýindi fylgja sunnanáttinni og mun hiti víðast hvar fara upp fyrir 5 stig og sums staðar ná 10 stigum.

Kemur þetta fram í viðvörun frá Veðurstofu Íslands.

Má því á morgun búast við asahláku um allt land sem ágerist þegar líður á kvöldið. Þetta verður fyrsta asahláka ársins og verður vatnsrennsli því mikið ofan af hálendi vegna úrkomu og leysingavatns.

Er t.a.m. hætta á að ár og vatnsföll vaxi mjög þannig að þau flæði yfir bakka sína og jafnvel varnargarða. Einnig er viðbúið að aukið álag verði á afrennsliskerfi bæja.

Við þessar aðstæður, sem reikna má með að myndist á morgun, er gott að hreinsa vel frá niðurföllum og útidyrum kjallara. En samfara hlákunni má búast við að blautur og þungur snjór finni sér farveg. Skapast því aukin hætta á aur- og krapaflóðum víðsvegar í fjalllendi.

Vegfarendur eru beðnir um að sýna sérstaka aðgát við og umhverfis ár sem og á ferðum sínum um fjalllendi.

Nánar má fylgjast með veðri á veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert