Þörf á gera alvöru breytingar á fjármálakerfinu

Árni Páll Árnason á fundinum í dag.
Árni Páll Árnason á fundinum í dag. mbl.is/Golli

Sitjandi ríkisstjórn er verklaus og forsætisráðherra er hættur í vinnunni og tekinn við störfum sem leiðtogi minnihlutans í borgarstjórn, þetta kom fram í setningaræðu Árna Páls Árnasonar formanns Samfylkingarinnar á flokkstjórnarfundi sem haldin er í Iðnó í dag í tilefni að 100 ára afmælis stjórnmálahreyfingar jafnaðarmanna.

Árni Páll gerði efnahagsmálin að umfjöllunarefni. „Þrátt fyrir fordæmalaust fjármálahrun hefur okkur tekist betur að glíma við þann vanda en dæmi eru um í öðrum ríkjum sem urðu fyrir áfalli. Byrðum var dreift með réttlátari hætti en í öðrum löndum og þeir sem meira hafa milli handanna hafa borið hlutfallslega mestu byrðarnar. Þess vegna tókst viðsnúningurinn svona vel,“ sagði hann.

Eigum að byggja upp góða heilbrigðisþjónustu

Framhaldið hafi hins vegar ekki verið jafn gott. „Fjármálakerfið er komið í hendur ríkisins og vildarvinir stjórnaflokkanna bíða í ofvæni eftir að fá að verða hinir nýju Borgunarmenn. Fá að komast yfir aðstöðu sem skilar miklu meiri tekjum en gert var ráð fyrir í upphafi. Það er lífsnauðsynlegt að gera alvöru breytingar á fjármálakerfinu áður en sala hefst á eignarhlutum ríkisins. Við þurfum að teikna upp nýtt kerfi í þágu íslenskra heimila og fyrirtækja sem vinnur með heilbrigðum hætti og ætlar sér eðlilegan arð af þeim verðmætum sem starfsemin skapar. Ekki sjálftöku eða Borgunararð. Ekki arð sem er búinn til með því að taka lán, eins og í tilviki VÍS. Bara eðlilegan arð. Þetta er hægt og verður að vera forgangsatriði fyrir stjórnmálahreyfingu jafnaðarmanna.“

Heilbrigðismálunum voru líka gerð skil. „Rúmlega 80 þúsund manns skrifa undir áskorun um betra heilbrigðiskerfi, en svarað er með því að setja upp bráðadeild í bílageymslu. Með þann mannauð sem við eigum í heilbrigðiskerfinu eru okkur allir vegir færir til að byggja upp örugga og góða heilbrigðisþjónustu. Það vitum við jafnaðarmenn og það munum við gera,“ sagði Árni Páll.

Ekki að hætta lífi sínu

Þá verði að gæta náttúrunnar og orðspors landsins. „Fólk flykkist til Íslands vegna þess hve falleg náttúran er, en líka vegna þess hve gott orðspor fer af Íslandi sem landi mannréttinda og jafnréttis. Þetta eru ómetanlegar auðlindir. En við verðum líka að vera land sem er öruggt að heimsækja. Ferðamenn eiga ekki að þurfa að hætta lífi sínu og annarra vegna lélegra innviða. Hér eiga allir að vera öruggir en til þess þurfa ferðamenn að taka þátt í að greiða fyrir þá þjónustu sem samfélagið veitir á meðan þeir dvelja hér.“ 

Aðstöðumunur ungs fólks á Íslandi og á Norðurlöndunum  sé þá ekki síður verðugt verkefni. „Undanfarnar vikur höfum við lesið á netinu og í blöðunum greinar eftir ungt fólk sem kallar eftir meiri stuðningi, betra velferðarkerfi, betri störfum og nýjum gjaldmiðli. Aðstöðumunurinn milli Íslands og Norðurlandanna þegar kemur að lífskjörum ungs fjölskyldufólks er himinhrópandi. Lykilverkefni okkar jafnaðarmanna er að skapa hér samfélag sem ungt fólk vill taka þátt í. Þangað eigum við að beina kröftum okkar, í að skapa góð, spennandi og vellaunuð störf, standa með barnafjölskyldum og laga barnabæturnar og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Síðast en ekki síst að auðvelda ungu fólki að eignast heimili, hvort sem það er á leigumarkaði, í félagslega reknu kerfi eða í einkaeigu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert