Að skapa venjulegt fólk

Kristín Júlla Kristjánsdóttir.
Kristín Júlla Kristjánsdóttir. Morgunblaðið/Ásdís Ásgeirsdóttir

Kristín Júlla Kristjánsdóttir var venjuleg þriggja barna móðir í Garðinum þegar örlögin tóku í taumana og ein auglýsing í blaði breytti öllu. Hún ákvað að fara að farða fyrir kvikmyndir og auglýsingar. Nú, rúmum áratug síðar, gerir hún það gott í bransanum. Tvær Eddur sitja á hillunni og ótal skemmtilegar minningar hafa skapast sem hún deilir með lesendum. 

Edduverðlaunastyttan sem Kristín Júlla fékk í fyrra fyrir förðun í Vonarstræti hefur fengið félagsskap. Nú standa þær tvær saman því Kristín fór heim með aðra styttu um daginn, að þessu sinni fyrir förðun í kvikmyndinni Hrútum; mynd sem sópaði til sín ellefu verðlaunum. Kvikmyndasminkan Kristín hefur í nógu að snúast og margt hefur drifið á daga hennar síðan lífið tók aðra stefnu.

Fjórtán tíma dagar

Kristín kemur til dyranna eins og hún er klædd, eða réttara sagt inn á kaffihúsið í Borgartúni. Hún er frjálsleg til fara í flaksandi köflóttri skyrtu og lítið sem ekkert máluð. Förðunarmeistarinn segist yfirleitt bara nota dagkrem og maskara. En persónurnar sem hún skapar eru vandlega farðaðar, oft svo vel að það lítur út fyrir að þær séu það alls ekki! Við súpum á tvöföldum latte og hefjum spjallið.

Kristín á ættir að rekja til Siglufjarðar þar sem hún á hús en er uppalin og býr enn í Garðinum, lengst suður með sjó. Þar býr hún með manni sínum Guðmundi, sem er sjómaður og tveimur sonum en elsti sonurinn er fluttur að heiman.

Hún vill hvergi annars staðar búa en segir stundum leiðigjarnt að keyra til og frá vinnu til höfuðborgarinnar. „Það er yndislegt að vera í Garðinum en ég er dálítið leið á því síðustu ár að vera alltaf að keyra á milli. Það getur verið erfitt á veturna; þetta er búið að vera þungur vetur. Ég er svona klukkutíma á milli staða og þegar það eru tólf tíma tökudagar verður dagurinn minn fjórtán tímar,“ segir hún.

Skyndiákvörðun sem breytti öllu

Kristín rekur sitt eigið fyrirtæki, Júlla ehf. og segist hafa nóg að gera. Verkefnin bíða hennar í röðum. En hún hefur ekki alltaf verið í þessum bransa. Áður en hún fór í förðunarnám var hún í ýmsum störfum en hún varð ung móðir. Þegar hún var rúmlega þrítug, þriggja barna móðir í Garðinum, var hún orðin leið og þyrsti í að komast í spennandi starf. „Ég er svo mikill spennufíkill og það hentaði mér aldrei að vinna níu til fimm. Þetta var skyndiákvörðun í raun og veru. Ég sá auglýsingu frá No Name-förðunarskólanum og hugsaði bara, já, já, ég læri þetta og fer að vinna við kvikmyndir,“ segir hún en mörgum fannst hún setja markið hátt. „Fólki fannst ég bara klikkuð, maður fer ekkert bara og lærir förðun og fer svo að vinna við kvikmyndir en ég ætlaði aldrei að fara í árshátíðarfarðanir. Ég fór með þetta markmið, að fara að vinna við auglýsingar eða bíó,“ segir Kristín.

Byrjaði ferilinn í sjálfboðavinnu

„Ég trúi mjög á alheimslögmálið,“ segir Kristín er hún fékk strax verkefni í kvikmyndum. „Ég tók ákvörðun um að fara í kvikmyndaskólann og bauð mig fram í útskriftarverkefnin hjá nemendunum þar. Þá var Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri skólastjóri þar og hún var mjög hrifin af þessari hugmynd. Þau borguðu bara bensínið. Þar kynntist ég því að vera á setti og kynntist fullt af fólki sem er í dag fólk sem er að vinna í bransanum,“ segir hún.

Eftir þessa reynslu fór Kristín á framhaldsnámskeið í förðun hjá Eskimó en þar kenndi Fríða María Harðardóttir. „Þar kynntumst við mjög vel og hún var á fullu að vinna í auglýsingum. Hún tók stóra áhættu og sendi mig að vinna í Coca Cola-auglýsingu sem hún ætlaði að gera og Reynir Lyngdal leikstýrði. Þetta voru þriggja daga tökur. Þetta var fyrsta reynslan mín í að bera ábyrgð. Þarna var ég bara komin inn. Það var hringt í mig fljótlega aftur út af auglýsingu,“ segir Kristín en eftir þetta fór boltinn að rúlla.

Að búa til venjulegt fólk

Ég spyr hvað sé skemmtilegast við starfið. „Að fá að skapa. Að fá að skapa karaktera. Mér finnst bara ótrúlega gaman að fá að búa til venjulegt fólk,“ segir hún. Ég hvái. „Búa til venjulegt fólk?“ „Já, venjulegt fólk, oft er það mesta vinnan. Tökum dæmi með Rétt þar sem aðalpersónurnar, sem Steinunn Ólína og Steini Bach leika, eru bara algerlega venjulegt fólk. Það er ekkert búið að búa til glamúr í kringum það, svona er bara fólk,“ segir Kristín. „Þarftu þá mikið að gera?“ spyr ég sem ekkert veit um kvikmyndaförðun. „Jú, það er svo fyndið, maður þarf einmitt svo mikið að gera. Eins og í Rétti, ég er að mála Steinunni Ólínu heilmikið. Það er oft mesta trixið, að búa til þetta náttúrulega. Við vorum að búa til hana Gabríelu. Steinu fannst geggjað að fá að leika þennan karakter og við þurftum að taka hana heilmikið niður, hún er glæsileg kona og alltaf flott. Þetta er líka erfitt fyrir leikkonu, að líta alltaf út fyrir að vera svona, með hárið alltaf dáldið slepjað. Þetta var heilmikil vinna, við þurftum til dæmis að byrja alla morgna að setja rúllur í hárið, þú hefðir aldrei trúað því! Hún er með smink, meik og maskara en þú sérð það ekki,“ útskýrir Kristín. „Það er alveg vinna að gera fólk „dull“!“

Sjá viðtalið í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert