Krapaflóð féll á hús á Bíldudal

Töluverðar skemmdir urðu á húsinu og eru rúður brotnar, sem …
Töluverðar skemmdir urðu á húsinu og eru rúður brotnar, sem og einn veggur. Ljósmynd/ Guðmundur Magnússon

Krapaflóð féll úr Búðargili á Bíldudal um hálf fimmleytið í dag og niður fyrir efstu götu í bænum undir gilinu, Lönguhlíð. Flóðið lenti á húsinu Höfðabrún, Lönguhlíð 22, og olli þó nokkrum skemmdum.

„Það eru brotnir gluggar og veggur brotinn,“ segir Hlynur Aðalsteinsson verkstjóri á Bíldudal. Húsið stendur á merktu snjóflóðasvæði þar sem enginn önnur hús standa.  

Reistur var varnargarður neðan Búðargils árið 2009 og féll flóðið meðfram honum án þess að renna upp á garðinn, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. Húsið sem fyrir flóðinu varð, er ekki varið af garðinum. Það var keypt upp af sveitarfélaginu þegar garðurinn var reistur og er ekki notað sem heilsársbústaður í dag.

Að sögn þeirra Bíldælinga sem mbl.is ræddi við þá sannaði varnargarðurinn þarna virkni sína, en flóðið var um 10 m breitt á götunni og breiddi úr sér þegar það lenti á húsinu.

Fleiri minni krapaflóð féllu úr hlíðinni ofan Bíldudals í dag að sögn Veðurstofu en þau stöðvuðust í hlíðinni vel ofan byggðarinnar.

Flóðið féll meðfram varnargarðinum.
Flóðið féll meðfram varnargarðinum. Ljósmynd/ Guðmundur Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert