40 gistu á hótelinu

Patreksfjörður
Patreksfjörður mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Alls gistu 40 af þeim 49 íbúum Patreksfjarðar sem þurftu að rýma hús sín í gær á Fosshóteli bæjarins. Helga Gísladóttir, formaður Rauða krossins á Patreksfirði, segir að vel hafi farið um fólkið þar í nótt og það sé allt annað líf eftir að hótelið tók til starfa í bænum. Áður þurfti að opna fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins í félagsheimilinu sem oft var ískalt en undanfarna vetur hefur verið hægt að hýsa íbúa á hótelinu sem sé ómetanlegt. Því það er eiginlega nóg fyrir fólk að þurfa að yfirgefa heimili sín vegna hættuástands.

Níu íbúar fengu inni hjá ættingjum en alls var 21 hús á þremur svæðum rýmt á Patreksfirði vegna hættu á krapaflóðum. 

Helga á von á því að fólk fái að snúa til síns heima eftir að búið verður að meta stöðuna í birtingu. Veðrið er að mestu gengið yfir og engin úrkoma er á Patreksfirði. Hún segir að veðrið hafi ekki verið svo slæmt þar í gær og í nótt, „Patreksfirðingar hafa oft séð það verra,“ segir Helga í samtali við mbl.is í morgun.

Helga, sem er kennari, segir að fólk hafi verið rólegt og það muni miklu að hún þekki öll börnin og eins kenni hún útlendingum íslensku þannig að hún og önnur kona í svæðisstjórn Rauða krossins, sem er pólsk, hafi getað útskýrt málið fyrir Pólverjum sem búa í þeim húsum sem þurfti að rýma.

Patreksfjörður
Patreksfjörður mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert