Kynna Suðurnesjamódelið fyrir Sameinuðu þjóðunum

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri er meðal þeirra sem sækja fundinn …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri er meðal þeirra sem sækja fundinn fyrir Íslands hönd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fulltrúar velferðarráðuneytisins, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Kvenréttindafélags Íslands og UN Women á Íslandi eru meðal þeirra sem mynda sendinefnd Íslands í New York sem taka mun þátt í 60. fundi Kvennanefnar Sameinuðu þjóðanna sem hefst í dag. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra leiðir sendinefndina sem telur alls 25 manns.

Þann 17. mars stendur Ísland fyrir viðburði á kvennanefndarfundinum sem ber yfirskriftina „Keep the Window Open“ og fjallar um verkefni sem íslensk stjórnvöld hafa sett í forgang til að sporna við ofbeldi í samfélaginu. Hér á landi hefur verkefnið verið kallað Suðurnesjamódelið en það miðar að því að bæta rann­sókn­ir í mál­um er varða heim­il­isof­beldi og koma fleiri mál­um í gegn­um rétt­ar­vörslu­kerfið. Verkefnið þykir hafa gefið góða raun og m.a. er unnið að svipuðu verkefni að íslenskri fyrirmynd í Svíþjóð.

Þátttakendur verða Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu ásamt Öldu Hrönn Jóhannesdóttur, yfirlögfræðingi hjá embættinu, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur og aðgerðasinni og fulltrúi Stígamóta.

Samkvæmt tilkynningu frá velferðarráðuneytinu er leiðarstef fundarins valdefling kvenna sem mikilvæg forsenda sjálfbærrar þróunar.  Auk „Keep the Window Open“ er á dagskrá sendinefndar Íslands ávarp ráðherra fyrir Íslands hönd um hvernig íslensk stjórnvöld hafa formgert samstarf um aðgerðir til að sporna við kynbundnu ofbeldi. Þá munu norrænir ráðherrar jafnréttismála blása til fundar þann 16. mars þar sem m.a. verður dregið fram hvernig reynsla Norðurlandaþjóðanna hefur sýnt að fjárfesting í jafnrétti kynjanna sé allra hagur.  Einnig stendur sendinefndin fyrir viðburði sem fjalla mun um leiðir til að meta ógreidd umönnunarstörf að verðleikum.

Fundurinn hefst klukkan 10:00 að staðartíma í dag og stendur til 18 mars. Hægt er að fylgjast með opnun fundarins á vef UN Women.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert