Styðji umsókn um áheyrnaraðild

Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga á Alþingi frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins þess efnis að skorað verði á ríkisstjórn Íslands að lýsa yfir stuðningi  við umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Tillagan er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins á aukafundi þess í Grindavík 31. janúar.

„Samhliða auknu alþjóðlegu mikilvægi málefna norðurslóða hefur Vestnorræna ráðið lagt sérstaka áherslu á málefni svæðisins síðastliðin ár. Umsókn ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu byggist ekki síst á mikilvægi þess að þjóðkjörnir þingmenn norðurslóða hafi möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanatöku sem snertir réttindi og hagsmuni íbúa vestnorræna svæðisins,“ segir meðal annars í greinargerð með tillögunni og ennfremur:

Áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu mundi veita Vestnorræna ráðinu aðgang að fundum Norðurskautsráðsins auk þátttöku í einstökum vinnuhópum, svo sem vinnuhóp um sjálfbæra þróun svæðisins. Áheyrnaraðildin yrði liður í að styrkja samstarf landanna um málefni norðurslóða og treysta stöðu Vestnorræna ráðsins gagnvart alþjóðlegu samstarfi um málefni svæðisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert