Segir borgarstjóra forðast blaðamenn

Kjartan Magnússon og Dagur B. Eggertsson.
Kjartan Magnússon og Dagur B. Eggertsson.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggur til að framkvæmdum verði hætt á Grensásvegi og fjármagni sem sparist við það verði varið í gatnaviðgerðir á höfuðborgarsvæðinu.

Gagnrýndi hann Dag B. Eggertsson borgarstjóra harðlega og sagði hann forðast blaðamenn þegar ræða þurfi „erfið“ mál líkt og ástand gatna í borginni. Vísaði hann meðal annars í umfjöllun Morgunblaðsins og Vísis um slæmt ástand gatna í borginni. 

Nú stendur yfir umræða um óviðunandi ástand gatna á fundi borgarstjórar en umræðan er að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Sagði Kjartan að viðhald gatna væri ein af frumskyldum hennar og sjálfsagður hlutur. Ástandið væri slæmt á götum Reykjavíkurborgar en það hefði ekki komið til á einni nóttu. Rakti hann sparnaðaraðgerðir í kjölfar bankahrunsins en þá var meðal annars minna lagt til gatnaviðhalds en áður.

Sagði hann að sérfræðingar hefðu sagt að hægt væri að spara í þrjú ár í mesta lagi en þá yrði að bæta í fjármagnið aftur og verja þá hærri upphæð en áður til að ná upp ástandi kerfisins. Það hafi aftur á móti ekki verið gert. Sparað hefði verið í þrjú ár og árið 2011 hafi enn minna verið varið í gatnaviðhald. Bætt var í næstu fjögur ár en sagði Kjartan að með því hefði aðeins verið að halda í horfinu og minni pening verði varið í framkvæmdir í ár en í fyrra.

Þá sjaldan að fjölmiðlar ná í borgarstjóra þá er hann brattur og heldur því fram að það sé átak í gangi. Það er í rauninni ekkert í gangi, bara verið að halda í horfinu, sagði Kjartan og bætti við að borgarstjóri væri ekki viðstaddur í kvöld þar sem hann dvelji þessa stundina á frönsku riveríunni.

„Þegar kemur að erfiðu málunum næst ekki í borgarstjórann, þessi áberandi maður sem virðist nærast á því að koma fram í fjölmiðlum,“ sagði Kjartan og bætti við ótrúlegt sé að borgarstjóri sé dögum saman á flótta undan blaðamönnum þegar svara þurfi fyrir „erfið mál“.

Hér má sjá glærur sem Kjartan varpaði upp á skjá en þar sem sjá má myndir af holum á götum borgarinnar.

Kolrangt að ekki náist í borgarstjóra

Næst tók S. Björn Blöndal, borgarfulltrúi Besta flokksins, til máls. Sagðist hann hafa vonast eftir málefnalegri umræðu frá Kjartani en honum hefði ekki orðið að ósk sinni. Bætti hann við að Kjartan hefði „hraunað yfir borgarstjóra“ og haldið því fram að það næðist aldrei í hann.

„Sem allir vita er kolrangt,“ sagði Björn. Þá sagðist hann ekki svara blaðamönnum Morgunblaðsins eftir kl. 22 á kvöldin og bætti við að blaðið væri „auðvitað málgang ákveðins stjórnmálaflokks.“

Sagði Björn Kjartan vera eina manninn í heiminum sem haldi því fram að aukin umferð hafi engin áhrif á slit malbiks og vísaði þar í ummæli Kjartans um að borgarstjóri kenndi ferðamönnum um aukið slit á götunum. Björn sagði jafnframt að Kjartan hefði mislesið upplýsingar um fé sem eigi að verja til gatnaviðhalds.

Sagðist Björn viðurkenna að ástand gatna væri erfitt, í Reykjavík og á öðrum götum á höfuðborgarsvæðinu, eða þar sem slit er mikið. Slitið sé komið til vegna óhagstæðs veðurfars, mikillar umferðaraukningar og þá hafi sparnaður vissulega leitt til þess að vegakerfið er ekki í góðu ástandi.

Þá sagðist hann einnig gera sér grein fyrir því að hugsanlega sé málið komið á það stig að frekar þurfi að endurnýja götur en halda þeim við. Þá sagði hann að eðlilegt væri að borgin fái tekjur vegna stóraukinnar umferðar ferðamanna um göturnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert