Keyrði á upprúllaða vegklæðningu

Mynd/Af Facebook síðu lögreglunnar á Vesturlandi

Vegklæðning fauk af í Kolgrafarfirði á um 100 metra kafla um helgina þegar veðurofsinn var sem mestur. Óheppinn ökumaður keyrði inn á svæðið og lenti á upprúllaðri vegklæðningu og fór bíllinn í loftköstum og skemmdist mikið. Þetta kemur fram á Facebook síðu lögreglunnar á Vesturlandi. Ökumaðurinn var einn í bílnum og kenndi hann eymsla í hálsi og baki og fór sjálfur í skoðun.

Fimm önnur umferðaóhöpp urðu í umdæminu, meðal annars bílvelta í Borgarfirði þar sem erlendir ferðamenn misstu bílaleigubíl sinn út af veginum í krapa og snjó. Tvennt var í bílnum en meiðsli þeirra voru minniháttar.

Erlendir ferðamenn festu bílaleigubíla sína í snjó í Skorradal og við Arnarstapa á Snæfellsnesi og voru þjónustuaðilar kallaðir út þeim til aðstoðar. Þá var einn ökumaður var tekinn fyrir ölvun við akstur.

Lögreglan segir þó að ekki hafi verið miklar fokskemmdir í umdæminu vegna óveðursins. Flest tilvikin um fokskemmdir, sem færðar voru til bókar hjá lögreglunni, voru í Stykkishólmi þar sem huga þurfti m.a. að viðbyggingu húss, skjólvegg við íbúðarhús og klæðningu sem var að losna af húsi. Þá fuku þakplötur af íbúðarhúsi á sveitabæ nærri Hvanneyri og eitthvað var um þakplötufok af húsum í Borgarnesi. Engin meiðsl urðu á fólki í veðurhamnum svo vitað sé.

Ekki urðu mjög miklar fokskemmdir í umdæmi LVL í óveðrinu sem að gekk yfir landið um sl helgi. Björgunarsveitir voru þó...

Posted by Lögreglan Vesturlandi on Tuesday, 15 March 2016
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert