Sex með stöðu brotaþola

Frá Vík í Mýrdal
Frá Vík í Mýrdal mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fjórir til viðbótar hafa nú stöðu brotaþola í rannsókn lögreglu á mansali í Vík í Mýrdal. Um er að ræða fólk frá Evrópu og hefur þeim öllum verið boðið starf hjá Icewear. Upphaflega var aðeins um að ræða tvo brotaþola, konur frá Sri Lanka, en þær eru nú farnar úr landi. Það mun ekki hafa áhrif á rannsókn málsins að sögn aðstoðaryfirlögregluþjóns.

Áður en konurnar yfirgáfu land var búið að taka af þeim skýrslu fyrir dómi þar sem verjandi sakborningsins var viðstaddur. Þetta segir  Þorgrímur Óli Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi í samtali við mbl.is.

Aðspurður hvernig rannsóknin gangi segir hann að nú sé verið að vinna úr gögnum en að svo virðist sem yfirheyrslur séu búnar í bili. Að sögn Þorgríms Óla hafa verið teknar skýrslur af vitnum, brotaþolum og sakborningi í málinu. Hann hefur nú verið látinn laus úr haldi en er í farbanni.

Fyrir utan konurnar tvær frá Sri Lanka eru fjórir aðrir brotaþolar í málinu og störfuðu þeir hjá sama fyrirtæki og þær. Þorgrímur Óli gat ekki tjáð sig um hvort að þeir brotaþolar hafi starfað hjá fyrirtækinu þegar að eigandinn var handtekinn í síðasta mánuði.

Um er að ræða fjóra einstaklinga frá Evrópu og að sögn Þorgríms Óla var þeim öllum boðin vinna hjá Icewear sem þau tóku. Ekki var hægt að bjóða konunum frá Sri Lanka það sama því þær voru ekki með atvinnuleyfi.

Gríðarlegt álag á ákærusviðinu

Þorgrímur Óli segir rannsóknina mjög viðamikla og segist ekki muna eftir eins stórri rannsókn í langan tíma. „Vinnustundirnar sem lögreglan hefur unnið hingað til eru komnar upp í á milli 600–700 klukkustundir,“ segir Þorgrímur Óli en bætir við að mikil vinna liggi einnig á ákærusviðinu.

Það er þá bæði vegna dómsúrskurðar sem þurfti að fá hjá héraðsdómi og svo skýrslutökurnar fyrir dómi sem voru tíu talsins. Þar að auki var tveimur úrskurðum áfrýjað til Hæstaréttar. „Þetta er því gríðarleg vinna sem liggur á ákærusviðinu sem hefur þurft að hvíla önnur mál á meðan,“ segir Þorgrímur Óli.

Að sögn Þorgríms Óla er rannsóknin á lokastigi með þeim fyrirvara að ekkert óvænt komi upp á. „En einn vitnisburður getur auðvitað breytt ansi miklu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert