Þarf að greiða 63 milljónir

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Anton Traustason, fyrrverandi framkvæmdastjóri einkahlutafélaganna Arctic Roadtrip og Cheap Jeep, hefur verið fundinn sekur um brot gegn skattalögum. Anton, sem er rúmlega fertugur, sat einnig í stjórn félaganna. Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. 

Anton játaði brot sín skýlaust. Var hann dæmdur til átta mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar. Þá þarf hann að greiða 63 milljóna króna sekt innan fjögurra vikna. Geri hann það ekki þarf hann að sæta fangelsi í 270 daga til viðbótar.

Anton var gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum einkahlutafélagsins Arctic Roadtrip á lögmæltum tíma á nokkrum tímabilum árin 2011 og 2012 og hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti.

Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum einkahlutafélagsins Cheap Jeep fyrir þrjá mánuði rekstrarárið 2013 og hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegan uppgjörstímabila árið 2013 og 2014.

Einnig var Anton gefið að sök að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfamanna Arctic Roadtrip auk þess að hafa ekki staðið skil á skilagrein Cheap Jeep vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabils rekstarárið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert