Flúði hávaðann á Landspítalanum

„Þetta var algjörlega óþolandi. Þetta varð eiginlega til þess að ég útskrifaði mig tveimur dögum fyrr en ég hefði átt að gera. Ég fór heim með poka fullan af lyfjum,“ segir Kristján Helgi Benjamínsson.

Hann tók nýverið upp myndband þar sem heyra mátti hávaðann sem hefur verið á Landspítalanum undanfarið vegna framkvæmda við nýtt sjúkrahótel.

Kristján Helgi þurfti að gangast undir aðgerð á spítalanum og lá inni í átta daga í byrjun febrúar. Hann segir að meðal tíminn sem fólki liggur inni eftir slíka aðgerð sé 10 til 11 dagar.

„Það var enginn friður á daginn, þrátt fyrir að glugginn hafi verið lokaður. Glerið er mjög þunnt og það berst allt í gegnum það,“ segir Kristján og bætir við að margir sjúklingar hafi kvartað yfir ástandinu. „Maðurinn sem var með mér í herbergi var búinn að vera þarna í yfir mánuð. Ég skil ekki hvernig hann var búinn að halda geðinu allan þennan tíma.“

Framkvæmdir hafa verið í gangi við Landspítalann við Hringbraut að …
Framkvæmdir hafa verið í gangi við Landspítalann við Hringbraut að undanförnu. mbl.is/Styrmir Kári

Kristján gerir ráð fyrir því að hávaðinn haldi áfram næstu árin vegna áframhaldandi framkvæmda við Landspítalann. „Maður heyrir í viðtölum við forstjóra sjúkrahússins að það sé vandamál hvað sjúklingar eru lengi inni, því það kosti svo mikla peninga. Þeir eru kannski bara fegnir að fólk sé að flýja hávaðann en ég get ekki ímyndað mér að fólk sé ekki annað en lengur að jafna sig þegar það þarf að hlusta á svona hávaða.“

Hann vill þó taka fram að þjónustan sem hann fékk hafi verið mjög góð. „Það voru allir ofboðslega góðir við mig og starfsfólkið var alveg frábært.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert