Gæsluvarðhald framlengt vegna tilrauna til nauðgana

Maðurinn skal sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 11. apríl.
Maðurinn skal sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 11. apríl. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hæstiréttur hefur staðfest framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir manni sem gerði tilraun til að nauðga tveimur konum með skömmu millibili í miðborg Reykjavíkur um miðjan desember. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 18. desember en ríkir almannahagsmunir eru sagðir til þess að maðurinn gangi ekki laus.

Maðurinn gaf sig sjálfur fram við lögreglu á sínum tíma eftir að lýst var eftir honum. Honum er gefið að sök að hafa ráðist á tvær stúlkur að nóttu til, á aðra þeirra í Tjarnargötu en hina í Þingholtsstræti.

Í dómnum kemur fram að héraðssaksóknari telji sterkan grun um að maðurinn hafi framið brotin. Sakarefnin séu alvarleg og ríki almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo standi á.

Ákæra gegn manninum var þingfest 10. febrúar en hann neitar sök. Aðalmeðferð málsins á að hefjast 30. mars. Maðurinn sat fyrst í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna en frá 23. desember hefur hann setið þar vegna almannahagsmuna. 

Hann áfrýjaði áframhalandi gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar. Þar var úrskurðurinn hins vegar staðfestur og situr hann áframhald í varðhaldi til 11. apríl.

Fyrri frétt mbl.is: Áfram í varðhaldi fyrir tilraunir til nauðgana

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert