Nóg komið af hörmungum í Sýrlandi

Sýrlenskir drengir ganga í Aleppo.
Sýrlenskir drengir ganga í Aleppo. Ljósmynd/UNICEF

„Þetta er auðvitað alveg ótrúlega mikilvægt málefni og gott að geta nýtt sér það þegar maður fær tækifæri til þess að láta gott af sér leiða,“ segir Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, meðlimur sveitarinnar Milkywhale sem kemur fram á baráttutónleikum á morgun vegna stríðsins í Sýrlandi. Það er UNICEF á Íslandi og KEXLand sem standa að tónleikunum en þeir hefjast klukkan 17:30 á Kex Hostel.

Melkorka segir UNICEF vinna frábært starf hér á landi sem skilar sér út í heim. „Hver einasti greiði skipti máli,“ segir Melkorka og bætir við að hún búist við húsfylli á Kex á morgun en þar koma fram ásamt Milkywhale, Amabadama, Sóley, dj. flugvél og geimskip, Kött Grá Pje og Úlfur Úlfur.

Í tilkynningu frá UNICEF segir að með tónleikunum sé verið að benda á að nóg sé komið af hörmungum í Sýrlandi og að tími sé kominn til að segja stopp.

Aðgangseyrir tónleikanna rennur í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn frá Sýrlandi.

Hljómsveitirnar gefa alla vinnu sína og KEXLand útvegar allt sem þarf til að tónleikarnir verði sem veglegastir. Auk þess útvegar Brimhljóð hljóðkerfi að kostnaðarlausu.

Aðgangseyrir er 1500 kr en frítt er inn fyrir börn 12 ára og yngri.

Hægt er að senda SMS-ið TONLEIKAR í númerið 1900 til að kaupa miða. SMS-ið kostar 1.500 kr. Einnig er hægt að greiða við hurð.

Gestir eru hvattir til að mæta tímanlega. Tónleikarnir hefjast kl 17:30 og eru sem fyrr segir nú á fimmtudag, 17. mars.

Dagskráin er svona:

17:30Amabadama
18:30Sóley
19:30dj. flugvél og geimskip
20:30Kött Grá Pje
21:30Milkywhale
22:30Úlfur Úlfur

DJ Silja Glømmi mun þeyta skífum á milli atriða. Hleypt er inn á meðan húsrúm leyfir.

Fjöldi flóttafólks í nágrannaríkjum Sýrlands hefur tífaldast frá árinu 2012. Helmingur flóttamannanna eru börn. Síðan í september á síðasta ári hafa 400 börn drukknað á flóttaleiðinni yfir Miðjarðarhafið, að meðaltali tvö börn á dag. 

„Það er með öllu óásættanlegt að börn drukkni í lekum bátum í leit að öryggi. Það er kolrangt að fjölskyldur hrekist á milli staða og viti ekki hvað bíður að morgni. Krefja þarf valdhafa um markvissar aðgerðir til að stöðva stríðið, veita þarf börnum og fjölskyldum þeirra neyðarhjálp og tryggja þeim alþjóðlega vernd. Við hvetjum fólk til að mæta á tónleikana, standa með okkur og segja stopp! Það er komið nóg af hörmungum í Sýrlandi,“ er haft eftir Bergsteini Jónssyni, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi í tilkynningu. 

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hafa UNICEF og samstarfsaðilar náð miklum árangri í Sýrlandi og nágrannaríkjunum og veitt milljónum barna neyðarhjálp frá því að stríðið hófst.

Tónleikarnir eru liður í átakinu #segjumSTOPP sem UNICEF á Íslandi stendur fyrir vegna þess að fimm ár eru liðin frá því að stríðið í Sýrlandi hófst. 

Þau sem ekki komast á tónleikana geta sýnt samstöðu með því að styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi: www.unicef.is/syrland

Melkorka Sigríður.
Melkorka Sigríður. mbl.is/Styrmir Kári
Fjöldi flóttafólks í nágrannaríkjum Sýrlands hefur tífaldast frá árinu 2012
Fjöldi flóttafólks í nágrannaríkjum Sýrlands hefur tífaldast frá árinu 2012 Ljósmynd/UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert