„Það er ekki oft sem manni blöskrar“

Hafin er bygging nýs sjúkrahótels við Hringbraut
Hafin er bygging nýs sjúkrahótels við Hringbraut mbl.is/Styrmir Kári

„Mér finnst það glapræði að halda áfram að byggja allan nýja Landspítalann við Hringbraut,“ segir Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur. Hann hefur starfað með Samtökum um betri spítala á betri stað. „Við höfum ítrekað farið fram á það að stjórnvöld láti framkvæma forsvaranlega staðarvalsgreiningu spítalans, sem aldrei hefur verið gerð.“ Gestur segir að gögnin sem lögð voru fyrir Alþingi til að byggja á ákvörðun um nýjan Landspítala „haldi ekki vatni“. Samtök um betri spítala hafi ekki viljað benda á tiltekinn stað fyrir nýjan spítala á meðan forsvaranleg staðarvalsgreining hefði ekki farið fram.

„Það koma ýmsir staðir til greina. Nýsamþykkt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins sýnir hvernig aðkomuleiðir að höfuðborgarsvæðinu liggja frá Vesturlandi, Suðurlandi og Reykjanesi. Æskilegur staður fyrir háskólasjúkrahús er þar sem þessar leiðir skerast,“ segir Gestur. Hann segir að vissulega verði að halda áfram að gera húsum Landspítalans við Hringbraut til góða á meðan spítalinn er þar til húsa.

Málið stærra en spítalinn

Fá þarf skipulagsfræðinga og aðra sem ekki hafa beinan hag af hönnun spítalans til að gera forsvaranlega staðarvalsgreiningu, að mati Gests. Hann segist vita um sérfræðinga t.d. í Englandi sem gætu unnið slíka greiningu á minna en ári.

Staðarvalsgreining myndi ná til samgangna og innviða eins og lagnakerfa auk peningamála, félagslegra afleiðinga, umhverfisáhrifa og fleiri þátta. Gestur segir að málið sé miklu stærra og flóknara en spítalabyggingin sjálf. Nefnd um byggingu nýs háskólasjúkrahúss, undir forystu Ingu Jónu Þórðardóttur, hafi m.a. bent á að gera þyrfti göng undir Öskjuhlíð og setja Miklubraut í tveggja hæða stokk á kafla ætti að byggja háskólasjúkrahúsið við Hringbraut. Gestur segir að þessi samgöngumannvirki, sem voru talin forsenda uppbyggingar spítalans, séu ekki á dagskrá.

Samtök um betri spítala hafa birt útreikninga, yfirfarna af KPMG, sem sýna að núvirt hagræði af því að byggja nýja Landspítalann við gamla Borgarspítalann í Fossvogi sé um 63 milljarðar umfram það að byggja við Hringbraut. Bygging spítalans á svonefndum „besta stað“ nálægt búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins og helstu umferðaræðum sé um 50-100 milljörðum umfram að byggja við Hringbraut.

„Þetta er almannafé sem myndi sparast og okkur munar um minna,“ segir Gestur. „Ég kenndi skipulagsfræði í mörg ár við Háskóla Íslands. Það er ekki oft sem manni blöskrar, en það er eins og menn hafi bitið það í sig að byggja við Hringbraut og enginn hafi haft bein í nefinu fyrr en forsætisráðherra kom og sagði að fá þyrfti faglega skoðun á málinu.“

Hann telur að hægt sé að hanna sjúkrahús á nýjum stað á um 18 mánuðum. „Það kemur fljótlega í ljós við staðarvalsgreiningu hvaða staður er hentugastur. Þá er hægt að gera þær breytingar á skipulagi og hönnun sem þarf og láta tímann vinna með sér.“

Gestur Ólafsson arkitekt
Gestur Ólafsson arkitekt mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert