Sárið í samfélaginu enn til staðar

Halla tilkynnti um framboð sitt til forseta í eldhúsinu á …
Halla tilkynnti um framboð sitt til forseta í eldhúsinu á heimili hennar í Kópavogi. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenski fáninn blakti rólega í blíðskaparveðri á Kársnesinu í dag þegar Halla Tómasdóttir tilkynnti þar á heimili sínu framboð sitt til embættis forseta Íslands. Í ræðu Höllu, sem hún hélt í eldhúsi sínu að viðstöddu margmenni, sagðist hún vera af þeirri lánsömu kynslóð sem orðið hafi fyrir djúpum áhrifum af forsetatíð Vigdísar.

„Myndin af henni á svölum síns heimilis, í heimaprjónuðum kjól með unga dóttur sína sér við hlið, hefur alla tíð verið ljóslifandi í mínum huga og verið mér eins og öllum af okkar kynslóð mikil hvatning,“ sagði Halla.

Heppin að hafa sterka kvenímynd

Í samtali við mbl.is segir hún að óneitanlega horfi hún til Vigdísar þegar hún ákveði að bjóða sig fram og segir hún hana mikinn áhrifavald í sínu lífi.

„Ég er tæplega tólf ára gömul þegar hún er kosin, jafngömul dóttur minni í dag. Þegar maður er svona heppinn að hafa fengið svona sterka kvenímynd á þeim aldri þá hefur það auðvitað mikil áhrif á mig.

Þá er það líka að verða móðir og eignast strák og stelpu. Upp frá því fór ég að hugsa öðruvísi um gildin í lífinu og hvernig samfélag við ætlum að búa til,“ segir Halla. „Ég held að tími sé kominn til að skoða grunngildi okkar og ræða þau, því það er vondur staður sem við erum komin á, þegar aðeins einn af hverjum tíu treystir stjórnvöldum. Þetta er brostið traust og afleiðing af því sem hér gerðist.“

Í fjárfestingageiranum hefur Halla lengi talað um mikilvægi þess sem hún kallar „emotional capital“, nokkurs konar mannlegan höfuðstól.

„Það verður ekkert til í Excel. Það er hægt að reikna alls konar hluti út en það er fólkið og hvernig það vinnur sem ræður úrslitum um hvort útkoman verði góð eða slæm. Ég hef alltaf verið á mannlegu hliðinni í viðskiptum og alltaf haft ofboðslega mikla trú á því að grunngildin sem byggt er á, hvort sem um sé að ræða fjölskyldu, fyrirtæki eða samfélag, ráði því hvert leiðinni er haldið.“

Umfjöllun mbl.is: Hver er Halla Tómasdóttir?

Halla segist óneitanlega horfa til Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta.
Halla segist óneitanlega horfa til Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta. mbl.is/ Árni Sæberg

Sárið í samfélaginu enn til staðar

Hún segir að þó efnahagur landsins hafi vænkast þá eigi það sama ekki við um aðra þætti samfélagsins, sem ekki séu síður mikilvægir.

„Við erum búin að sinna efnahagslegu verkefnunum nokkuð vel en tilfinningakreppa okkar, og sárið sem varð til í samfélagssáttmálanum, þau eru ennþá til staðar. Ég held að næsta verkefni sé að sinna því svo unga fólkið okkar vilji búa hér.“

Þá segir hún að í íslensku samfélagi hafi um nokkurt skeið verið forgangsraðað á rangan hátt.

„Ef við horfum til dæmis til þess hvernig við skilgreinum arðsemi eða gróða. Við skilgreinum þau hugtök afskaplega þröngt og í raun einungis út frá fjárhagslegum viðmiðum,“ segir Halla.

„Ég trúi því að góð og framsýn samfélög horfi á fleira en hagvöxt og fjárhagslegan arð, að þau horfi einnig til samfélagslegra og umhverfislegra þátta þegar þau skoða sína frammistöðu, setji sér markmið og reyni að gera betur.“

EIginmaður og börn Höllu stóðu álengdar á meðan hún flutti …
EIginmaður og börn Höllu stóðu álengdar á meðan hún flutti framboðsræðu sína. mbl.is/Árni Sæberg

Ákvörðunin reyndist ekki auðveld

Ákvörðun Höllu um framboð má rekja allt aftur til þess þegar hún, sjö ára gömul, varð vitni að því þegar konur lögðu niður störf þann 24. október 1975. Í ræðu sem hún hélt á TED-ráðstefnu fyrir sex árum sagði hún að þann dag hefði hún ákveðið að skipta máli.

„Ég vil gera gagn og láta gott af mér leiða,“ segir Halla. „Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að almennt hugsi það of fáir í dag. Bæði vegna þess að það er ákveðin áhætta, að stökkva út og segja það, í samfélagi þar sem umræðan er kannski ekki alltaf á jákvæðum nótum.

En líka vegna þess að ég held að við höfum ekki endilega alltaf hugrekki til að standa með sjálfum okkur og segja það sem okkur býr í brjósti. Stundum ræður kerfið för meira en okkar eigin manneskja.“

Þá segir hún að þessi ákvörðun hafi síður en svo reynst sér auðveld.

„Ég þurfti að hugsa hana mjög lengi. Hún hefur ekki bara áhrif á mann sjálfan heldur varðar hún fjölskylduna þína og þitt líf. En ég vil gera gagn og ég trúi því að við búum að svo miklum verðmætum hérna á Íslandi. Það er bara synd ef við nýtum ekki þennan tímapunkt til að gera þetta samfélag að því samfélagi sem við viljum búa í. Að það sé hlustað á vilja fólksins.“

Halla segir hlutverk Bessastaða vera umræðuvettvang fyrir þau mál sem …
Halla segir hlutverk Bessastaða vera umræðuvettvang fyrir þau mál sem varða langtíma hagsmuni þjóðarinnar. mbl.is/Eggert

Ákvörðunin óháð framboði Ólafs Ragnars

Áskorunarsíða var stofnuð á Facebook á fullveldisdaginn, 1. desember, mánuði áður en Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann myndi ekki bjóða sig fram að nýju. Virðist því sem fólk hafi trú á Höllu til að gegna embættinu, sem aðeins fimm manns hafa gegnt undanfarin 72 ár.

„Þeir sem þekkja mig og hafa unnið mér virðast flestallir hafa trú á mér og mér þykir mjög vænt um það. Fólk er að koma hérna sem hefur verið mér samferða í gegnum öll þau verkefni, skólagöngu og annað sem ég hef tekið mér fyrir hendur, en líka ungt fólk sem hefur ekki þekkt mig lengi og horfir samt til mín.

En ákvörðun mín hafði samt ekkert með það að gera hvort Ólafur ætlaði að bjóða sig fram eða ekki. Þetta er bara miklu stærri spurning heldur en svo. Hún hefur heldur ekkert með það að gera hverjir aðrir bjóða sig fram. Það þarf bara hver og einn að setjast niður með sjálfum sér og spyrja, get ég gert gagn?

Ég var lengi að svara þeirri spurningu, hvort ég hefði það sem til þyrfti að bera, og ég komst að þeirri niðurstöðu að svo væri. Svo þurfti ég að hugsa hvort ég vildi þetta og allt sem kemur með því. Það er kannski ennþá flóknari ákvörðun.“

Halla ásamt fjölskyldu sinni. Hún er gift Birni Skúlasyni viðskiptafræðingi …
Halla ásamt fjölskyldu sinni. Hún er gift Birni Skúlasyni viðskiptafræðingi og eiga þau tvö börn. mbl.is/Árni Sæberg

Hægt að læra eitthvað af öllum

Spurð á hvaða hátt hún muni fara með vald forseta, og hverjum hinna fimm forseta hún muni líkjast í þeim efnum, segir Halla að jafnan sé ekki svo einföld.

„Það er hægt að læra eitthvað af öllum sem fara á undan manni. Ég horfi yfirleitt á það til fyrirmyndar og þá er bæði hægt að læra eitthvað gott og svo stundum sér maður einhverja hluti sem maður vill ekki hafa eftir fyrirrennurum sínum.“

Halla segist að lokum vera ópólitísk og er hún þeirrar skoðunar að það sé betra að forseti sé ópólitískur.

„Ég tel að sá sem sitji á Bessastöðum þurfi að fara fyrir vilja allrar þjóðarinnar, ekki einhverjum einstökum hugmyndafræðilegum skoðunum sem kannski verða of rótgrónar ef maður hefur starfað á sviði stjórnmála.“

Óttast ekki að þjóðin fái meira vald

„Ég mun hins vegar hafa hugrekki til að fylgja minni sannfæringu þarna eins og annars staðar ef ég verð kosin. Ég óttast það ekki að vilji þjóðarinnar fái stærri rödd og meira vald í þessu samfélagi.

Ég trúi því að í þjóðinni búi bæði viska og vit og auðvitað mikill sköpunarkraftur. Ég tel okkur standa á tímamótum, þar sem miklar umbreytingar í heiminum eru að gjörbreyta því landslagi sem varðar í rauninni alla þætti okkar samfélags.

Núna er tíminn til að taka umræður um hvers konar heilbrigðiskerfi við viljum hafa, hvers konar menntakerfi, hvers konar fjármálakerfi, við þurfum að taka þessi stóru mál sem varða hagsmuni okkar allra og ræða þau. Ég lít á hlutverk Bessastaða sem farveg fyrir það, sem umræðuvettvang fyrir þau mál sem varða langtíma hagsmuni okkar allra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert