Uppgjörið stendur undir nýjum spítala

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, á aðalfundi Seðlabankans í dag.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, á aðalfundi Seðlabankans í dag. Eggert Jóhannesson

Stjórnvöld beittu afarkostum og það tryggði að stærsta snjóhengjan var leyst á 10 mánuðum eftir að aðgerðir stjórnvalda hófust.

Nú er málið komið í farveg með nauðasamningum og engin lagaleg ágreiningsefni eru útistandandi, „thank you goodbye.“ Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á aðalfundi Seðlabanka Íslands, í dag.

Frétt mbl.is: Losun hafta á fyrri hluta ársins

Sagði hann að framsal slitabúanna og aðrar ráðstafanir hafi haft mikil og varanleg áhrif. Þó gera megi ráð fyrir að einhvern tíma taki að koma eignunum í verð segir Bjarni að þær beri góðar rentur og í flestum tilfellum meiri en ríkið greiði í vexti af skuldum sínum.

Uppgjörið stendur undir þjóðarsjúkrahúsi

Fór Bjarni yfir áhrif stöðugleikaframlaganna á fjárhag ríkisins og sagði hann að uppgjör við búin stæði undir fullri fjármögnun nýs þjóðarsjúkrahúss. Sagði hann að tölur um það myndu sjást í nýjum ríkisreikningi sem muni liggja fyrir í næsta mánuði.

Áhrif stöðugleikaframlagsins er að sögn Bjarna bætt skuldastaða ríkisins en á undanförnum árum hafa vaxtagreiðslur ríkissjóðs dregist saman um 25 milljarða á ári. Segir Bjarni að stöðugleikaframlögin séu stór hluti af því.

Til framtíðar megi svo vænta þess að þessi upphæð verði nýtileg í fleira en spítalann. „Við getum farið að hafa væntingar um hækkandi fjárfestingastig hins opinbera,“ segir Bjarni en ítrekar þó að tímasetja þurfi slíkt vel.

Sígild hættumerki við sjóndeildarhringinn

Næsta skref í haftalosun er að sögn Bjarna útboð aflandskróna sem mun fara fram á fyrri hluta ársins. Sagði Bjarni í samtali við mbl.is að í kjölfarið yrði farið í afnám hafta og að þá muni koma í ljós hvernig efnahagslífið muni spjara sig utan þeirra. Bjarni tók þó fram að ekki stæði til að bjóða viðlíka hættu heim og fyrir hrun.

Staða ríkissjóðs og efnahagslífsins er að sögn Bjarna orðin mjög góð. Þó sagði hann að ýmis sígild hættumerki væru við sjóndeildarhringinn í efnahagslífinu. Nefndi hann sem dæmi að framleiðsluslakinn væri horfinn og að hagvöxtur væri talsverður. Ítrekaði hann að koma þyrfti í veg fyrir þenslu. Sagði hann í því sambandi mikilvægt að gæta aðhalds í útgjöldum hins opinbera.

Framtíðin aldrei jafn björt og núna

Bjarni var þó nokkuð bjartsýnn í ræðu sinni og sagði að framtíðin hefði aldrei verið jafn björt hjá Íslendingum og núna. Sagði hann þetta stór orð, en að fjöldi röksemda væru fyrir staðhæfingunni. Þannig hefði landsframleiðsla aldrei verið meiri hér á landi, bæði í heild og á hvern einstakling. Þá væri í gangi lengsta hagvaxtartímabil þjóðarinnar og að efnahagsvélin gengi vel.

„Íslenska hagkerfið hefur aldrei hvílt á jafn mörgum öflugum stoðum,“ sagði Bjarni og bætti við að staðan væri um margt öfundsverða fyrir ríki sem væru að reyna að blása lífi í eigið efnahagslíf.

Meiri tími í stóru myndina og minni tími í smáatriðin

Verkefnið er þó ekki nema hálfpartinn unnið að sögn Bjarna því það þyrfti hugarfarsbreytingu hér á landi þar sem langtímahugsun réði ferð en ekki skammtímalausnir. „Þurfum meiri tíma í stóru myndina og minni tíma í smáatriðin,“ sagði Bjarni og bætti við að halda þyrfti áfram að þróa samstarfið milli vinnumarkaðarins og hins opinbera.

Sagði hann að á næstunni myndi reyna á hvað landsmenn væru til í að leggja á sig til að ná fram langtímamarkmiðum. Ef ekki væri staðið á bakvið hugmyndina sem unnið væri eftir myndu menn gefast upp í miðri á og því fylgdi verðbólga og hærra vaxtastig.

„Ef það gerist skulum við ekki skella skuldinni á íslensku krónuna,“ sagði Bjarni og bætti við að hún væri oft blóraböggull fyrir agaleysi.

Frétt mbl.is: Landsframleiðsla 4% meiri en fyrir hrun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert