Ólíðandi staða geðheilbrigðismála

Sara Mansour, formaður ungmennaráðs UNICEF á Íslandi, er mjög gagnrýnin á stöðu geðheilbrigðismála ungmenna. Ráðið stóð í haust fyrir Heilabroti, átaki til þess að vekja athygli á úrræðaleysinu og vinna gegn fordómum en Sara segir að þrátt fyrir mjög góðar viðtökur í samfélaginu hafi átakið engu breytt gagnvart stjórnvöldum. Heldur ekki svört skýrsla Ríkisendurskoðunar sem kom út fyrir nokkrum vikum.

Spurn eftir þjónustu stofnana sem sinna geðheilbrigðismálum barna og unglinga hefur stóraukist síðustu ár og biðtími lengst. Síðla árs í fyrra biðu um 400 börn eftir þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvar, 120 voru á biðlista göngudeildar Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og rúmlega 200 biðu eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.

„Ef þessi börn væru líkamlega veik væri þetta ekki látið viðgangast,“ segir Sara Mansour um biðlistana löngu og andlega veiku börnin. „Það vantar að stjórnvöld segi hve löng bið eftir þjónustu sé ásættanleg og eftir þann tíma komist fólk að á einkareknum stofum í heilbrigðiskerfinu, eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og ríkið greiði fyrir; þannig er tryggt að barn fái þjónustu á skikkanlegum tíma. Við höfum ekki nefnt neinn sérstakan tíma í þessu sambandi, bara að sett verði einhver tímamörk. Óvissan er svo erfið,“ segir Sara Mansour.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert