Tegundasvik viðgangast

30% sýna sem starfsmenn MATÍS tóku á tíu veitingastöðum í Reykjavík sýndu að ekki var um þá fisktegund að ræða sem pöntuð hafði verið af matseðli. Í rannsókninni fóru starfsmenn MATÍS á veitingastaðina, pöntuðu fisk og tóku úr honum sýni sem svo voru erfðagreind.

Jónas R. Viðarsson, fagstjóri hjá MATÍS, segir að sambærilegar rannsóknir hafi verið gerðar erlendis sem sýnt hafi svipaða niðurstöðu um tegundasvik. „Við tókum 27 sýni af 10 veitingastöðum og þar af voru átta sem ekki voru af þeirri tegund sem þær áttu að vera. Það bendir til þess að tegundasvindlið sé svipað hér og víða annars staðar,“ segir Jónas.

Í heild hafa verið tekin um 50 sýni, einnig utan Reykjavíkur. Þessar bráðabirgðaniðurstöður voru kynntar á málstofu MATÍS í fyrradag. Fleiri sýni verða tekin að sögn Jónasar. Af þessum átta sýnum voru tvö sem áttu að vera þorskur en voru langa, í einu sýni var guluggatúnfiskur í stað dýrari bláuggatúnfisks, í tveimur tilfellum var boðinn túnfiskur sem var af annarri túnfiskstegund á svipuðu verðbili. Í einu tilfelli var boðið upp á hlýra í stað steinbíts, í öðru var keila borin fram í stað skötusels, þá var einnig boðið upp á þorsk í stað ýsu.

Jónas segir að sum þessi tilfelli séu augljóslega svik í viðskiptum en í öðrum geti verið um að ræða þekkingarleysi. „Þetta eru ekki allt svik að yfirlögðu ráði þar sem borin er fram ómerkilegri vara en það sem maður heldur að maður sé að kaupa. Af þessum átta tilfellum var helmingur þar sem menn voru að selja fólki óæðri vöru undir því yfirskini að þetta væri eitthvað betra,“ segir Jónas.

Hann segir að umrædd veitingahús séu allt frá því að vera skyndibitastaðir yfir í að vera dýr veitingahús. Til staðfestingar spurðu starfsmenn MATÍS þjóna hvort ekki væri örugglega um að ræða þá fisktegund sem pöntuð hafði verið. Að sögn Jónasar hafa sambærilegar rannsóknir erlendis sýnt að oft er það milliliðurinn sem er svindlarinn. Veitingastaðurinn sé oft í góðri trú um að merkingar á pakkningunum séu réttar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert