Vilja miðhálendið á heimsminjaskrá

Sjö þingmenn frá öllum stjórnmálaflokkunum sem sæti eiga á Alþingi að undanskilinni Vinstrihreyfingunni - grænu framboði hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að ríkisstjórninni verði falið „að setja miðhálendi Íslands á yfirlitsskrá yfir þá staði sem ætlunin er að skrá sem heimsminjar UNESCO og fela heimsminjanefnd Íslands að undirbúa umsókn þar að lútandi.“ Fyrsti flutningsmaður er Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

„Til þess að komast á heimsminjaskrá þarf viðkomandi staður að vera einstakur í heiminum, afmörkun hans þarf að vera skýr af hálfu viðkomandi ríkisstjórnar og full sátt þarf að ríkja um verndun, umsjón og rekstrarfyrirkomulag hans. Til þess að tilnefna megi miðhálendi Íslands þyrfti því að fara fram umfangsmikil undirbúningsvinna og stefnumörkun, m.a. um verndun þess. Ef staður er skráður á heimsminjaskrá á hvert ríki þess kost að fá alþjóðasamfélagið til samstarfs um að upplýsa íbúa viðkomandi lands um einstakt gildi staðarins og aðstoða þannig við að varðveita náttúru- og menningarminjar hverrar þjóðar,“ segir meðal annars í greinargerð og áfram:

„Staðir á heimsminjaskránni draga gjarnan að aukinn fjölda ferðamanna þannig að mikilvægi viðkomandi staða eykst í þjóðhagslegu tilliti. Heimsminjaskráin er talin vera afar öflugt tæki til minja- og náttúruverndar ekki síður en til uppbyggingar vandaðrar ferðaþjónustu í hverju landi.“

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert