Málning flagnaði og klakar flugu

Húsið er illa farið eftir óveðrið, líkt og sjá má.
Húsið er illa farið eftir óveðrið, líkt og sjá má. Ljósmynd/Jón Guðbjörn Guðjónsson

Óveðrið sem gekk yfir Norðurland og Vestfirði fyrir tæpri viku síðan hafði ýmsar afleiðingar. Hjálparstöð var meðal annars opnuð á Patreksfirði, vatn flæddi yfir veg í Eyjafirði og malbik flettist af veginum við Kolgrafar­brú á Snæ­fellsnesi. Engin slys urðu þó á fólki.

Fjarskiptastöð Mílu við Reykjaneshyrnu í Árneshreppi er meðal þeirra húsa sem er illa farið eftir óveðrið.

„Öll málning er farin af veggjum eða göflum sem snéru í suð-suðvestan átt í fárviðrinu,“ segir Jón Guðbjörn Guðjónsson, veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík í Árneshreppi.

Símahúsið, líkt og það er gjarnan kallað, lítur nú út eins og það sé rétt undirbúið undir málningu, að sögn Jóns. „Það er eins og það sé sandblásið eða vel skafið undir málningu, enda sjást ýmsir grunnlitir á veggjum skúrsins og á stálbitamastrinu eru miklir blettir eftir skafrenninginn og klakann sem skóf upp í fárviðrinu,“ segir Jón.

Jón segir flest hús á svæðinu svipað farin og fjarskiptastöðin. „Flest öll hús er svona farin á þeim hliðum sem snúa í vindáttina, en það sést reyndar ekki á Kaupfélagshúsunum.“

Fljúgandi klakabunkar

Mikil hlýindi fylgdu lægðinni og fór hiti til að mynda upp í 17,6 stig á Siglufirði og mældist hitinn 10 stig eða meira á 48 stöðvum í byggð. Trausti Jónsson, veðurfræðingur greindi frá þessu á bloggsíðu sinni.

Vindur á Vestfjörðum fór yfir 50 metra á sekúndu og segir Jón það hafa verið afar sérstakt að fylgjast með skafrenningnum í þessum óvenjulega hita. „Maður hætti sér ekki út en fylgdist með klakastykkjum fljúga fyrir utan gluggann.“ Jón segir það mikla mildi að ekki hafi farið verr. „Það er almannarómur í hreppnum að ótrúlegt sé hvað við sluppum vel.“

Býður enn eftir vorinu

Snjórinn er nú farinn að mestu leyti og aðspurður hvort vorið sé komið í Árneshreppi segist Jón ekki vera svo bjartsýnn. „Þó það sé flekkótt jörð og nánast ómælanleg snjódýpt þá er nú bara 19. mars, það getur snjóað hérna fram í júní.“

Svona leit húsið út fyrir óveðrið.
Svona leit húsið út fyrir óveðrið. Ljósmyn/Jón Guðbjörn Guðjónsson
Ytra byrði fjarskiptastöðvar Mílu við Reykjaneshyrnu í Árneshreppi er eitt …
Ytra byrði fjarskiptastöðvar Mílu við Reykjaneshyrnu í Árneshreppi er eitt þeirra húsa sem fékk að kenna á óveðrinu 13. mars sl. Ljósmynd/Jón Guðbjörn Guðjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert