Ótrúlegt að viðbrögð séu engin

15-20% barna eiga í geðrænum vanda á hverjum tíma 5% …
15-20% barna eiga í geðrænum vanda á hverjum tíma 5% barna þurfa á sérfræði- þjónustu að halda mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftirspurn eftir þjónustu stofnana sem sinna geðheilbrigðismálum barna og unglinga hefur stóraukist síðustu ár og biðtími lengst. Síðla árs í fyrra biðu um 400 börn eftir þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvar, 120 voru á biðlista göngudeildar BUGL og rúmlega 208 biðu eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.

Sara Mansour, formaður ungmennaráðs UNICEF á Íslandi, er mjög gagnrýnin á stöðu geðheilbrigðismálum ungmenna. Ráðið stóð í haust fyrir Heilabroti, átaki til þess að vekja athygli á úrræðaleysinu og vinna gegn fordómum en Sara segir að þrátt fyrir mjög góðar viðtökur í samfélaginu hafi átakið engu breytt gagnvart stjórnvöldum. Heldur ekki svört skýrsla Ríkisendurskoðunar sem kom út fyrir nokkrum vikum.

Ungmennaráð UNICEF
Ungmennaráð UNICEF

„Þetta átak í haust fékk rosalega góðar viðtökur. Verkefnið Ég er ekki tabú, herferð gegn tabúi geðsjúkdóma, var byltingarkennt í íslensku samfélagi og vakti líka athygli í haust; þar vorum við að viðurkenna hve alvarlegur og algengur vandinn er,“ segir hún.

Þrotlaus vinna

„Við áttum fund með heilbrigðismálaráðherra en þá kom reyndar í ljós að hann hafði ekki séð myndina og ekki heldur fylgst með umræðum á netinu,“ segir Sara afar vonsvikin. „Okkur fannst mjög leiðinlegt, eftir að hafa lagt þrotlausa vinnu í myndina í meira en heilt ár, að ráðherra hefði ekki einu sinni gefið sér tíma til að horfa á 10 mínútna mynd áður en hann hitti okkur.“

Geðræn vandamál fara ekki í manngreinarálit. Þau sneiða heldur ekki …
Geðræn vandamál fara ekki í manngreinarálit. Þau sneiða heldur ekki hjá einstökum þjóðfélagshópum, ekki einu sinni börnum og unglingum mbl.is/Golli

Þegar unnið var að aðgerðaráætlun til fjögurra ára í geðheilbrigðismálum, veitti ungmennaráð UNICEF umsögn og Sara segir að lögð hafa verið fram töluverð gagnrýni. „Því miður var ekkert tekið mark á henni. Við tókum sérstaklega fram að það vantaði heildaryfirsýn og að gerðar yrðu kannanir og virkilega skannað fyrir vandanum. Í geðheilbrigðisáætluninni er ekki fjallað sérstaklega um börn en allir vita að það er allt öðruvísi að vera veikur sem barn en fullorðinn; veikindin eru mun meira mótandi fyrir barnið og tíminn líður öðru vísi.“

Hún nefnir að í áætluninni sé ekki tekið fram hve biðtími eftir þjónustu megi vera langur. „Hvaða tími er ásættanlegur?“ spyr hún. „Það vantar líka samráð við fagaðila og þá sem hafa þurft að takast á við vandann á síðustu árum. Líka að fjallað sé um börn með tvíþættan vanda, bæði andleg veikindi og einhver önnur.“

Í myndinni koma hjón með son sinn á bráðamóttöku og …
Í myndinni koma hjón með son sinn á bráðamóttöku og segja að hann sé líklega fótbrotinn - þeim er sagt að biðin séu fjórir mánuðir. Svona er tekið á vanda barna sem glíma við geðræðan vanda.

Dæmin eru fleiri, segir hún.

„Við byrjuðum á seinasta ári með þetta verkefni og í haust frumsýndum við stuttmyndina Heilabrot sem sýnd var í öllum framhaldsskólum og grunnskólum á landinu og fjallaði um strák sem fótbrotnar á fótboltaæfingu en fer í gegnum sjúkraferli eins og hann væri andlega veikur; þarf til dæmis að bíða eftir röntgenmyndatöku jafn lengi og meðalbarn þarf að bíða eftir greiningu og þarf að bíða í eitt og hálft ár eftir aðgerð.“

Sara nefnir að í kjölfar þess sem kalla megi mótmæli ungmennaráðsins hafi heilbrigðisráðherra veitt nokkrar milljónir króna í Þroska- og hegðunarstöðina, þar sem biðlistar séu allt að tveimur árum. „Hægt var að ráða fleira starfsfólk og stytta biðlista en það var skammtímaáætlun og gildir bara í eitt ár.

Í raun er ekki verið að stytta biðlistann heldur viðhalda þeim fjölda sem bíður. Það vantar langtímalausn.“

„Ef þessi börn væru líkamlega veik væri þetta ekki látið …
„Ef þessi börn væru líkamlega veik væri þetta ekki látið viðgangast,“ segir Sara Mansour um biðlistana löngu og andlega veiku börnin. mbl.is/Heiddi

Alvarleg gagnrýni

Sara minnir á að biðlistar á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) séu gríðarlega langir, erfitt sé að komast að hjá skólasálfræðingi og einnig sé mjög erfitt að komast að hjá sálfræðingum úti í bæ, „fyrir utan það að ekki er á hvers manns færi að borga 10 þúsund fyrir tímann.“

Það komu Söru gríðarlega á óvart að þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar kom voru viðbrögð „sama og engin. Ríkisendurskoðun kom fram með mjög alvarlega gagnrýni á heilbrigðiskerfið; segir beinlínis að heilsa og velferð barna sé í hættu, en þrátt fyrir það, og þrátt fyrir Heilabrot, gerðu stjórnvöld ekkert með þetta. Þau eru bara með fjögurra ára áætlun, sem er auðvitað betri en ekki neitt, en samt rosalega gölluð“.

„Ef þessi börn væru líkamlega veik væri þetta ekki látið viðgangast,“ segir Sara Mansour um biðlistana löngu og andlega veiku börnin.

„Það vantar að stjórnvöld segi hve löng bið eftir þjónustu sé ásættanleg og eftir þann tíma komist fólk að á einkareknum stofum í heilbrigðiskerfinu, eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og ríkið greiði fyrir; þannig er tryggt að barn fái þjónustu á skikkanlegum tíma. Við höfum ekki nefnt neinn sérstakan tíma í þessu sambandi, bara að sett verði einhver tímamörk. Óvissan er svo erfið.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert